Síðustu stundir Hoffmans

Margir hafa minnst Hoffmans, m.a. með því að leggja blóm …
Margir hafa minnst Hoffmans, m.a. með því að leggja blóm fyrir utan íbúð hans í New York. EPA

Daginn áður en leikarinn Philip Seymour Hoffman fannst látinn í íbúð sinni á Manhattan fór hann á eftirlætiskaffihúsið og fékk sér fjórfaldan espressó. Um kvöldið fór hann út að borða á veitingastaðnum Automatic Slims. Allt virtist eins og það átti að vera - bæði um morguninn og um kvöldið. En í frétt CNN, þar sem síðustu stundir leikarans eru raktar, kemur fram að þeir sem áttu samskipti við hann þennan dag hafa aðra sögu að segja.

Barnsmóðir hans segir að hann hafi virst vera í vímu. Vegfarandi sem heilsaði honum úti á götu segir að hann hafi verið „út úr heiminum“. Hoffman sást oft á reiðhjóli eða á göngu með börnin sín í hverfinu sínu, Greenwich Village í New York. Lögreglan reynir nú að fá heildarmynd af síðustu dögum leikarans í þeirri von að hægt verði að finna þá sem seldu honum eiturlyfin sem fundust í íbúð hans og hann er talinn hafa látist vegna ofneyslu á.

Hér að neðan fer samantekt CNN um síðustu stundir Hoffmans, þar til hann fannst látinn í íbúð sinni á sunnudag:

Laugardagsmorgunn. Hoffman fór á kaffihúsið Chocolate Bar og pantaði það sama og venjulega: Fjórfaldan espressó með ísmolum og smámjólk. Hann var einn og spjallaði við starfsfólkið. „Það virtist allt í lagi með hann,“ segir framkvæmdastjóri kaffihússins. „Hann virtist í góðu skapi. Hann var mjög ánægður.“

Um kl. 13.30. Aðstoðarkona Hoffmans ræddi við hann í síma. Hún hélt einnig að ekkert amaði að. Hún sagði lögreglu að hún hefði heimsótt íbúð Hoffmans á föstudeginum og ekki tekið eftir neinu óvenjulegu.

Kl. 14.00. Fyrsta vísbending um að ekki sé allt með felldu. Mimi O'Donnell, barnsmóðir Hoffmans, sá hann í nágrenni við íbúðina á Manhattan. Hún sagði lögreglu síðar frá því að hann hefði virst í vímu.

Kl. 17.00. Framleiðandinn Paul Pabst sá Hoffman ganga um Greenwichstræti. Systir Pabst, sem var með honum, ákvað að heilsa leikaranum og Hoffman virtist undrandi á að einhver skyldi þekkja hann á götu. Hann heilsaði engu að síður með því að gefa henni „fimmu“. Systirin sagði að Hoffman hefði virst „út úr heiminum“.

Laugardagskvöld. Hoffman snæddi kvöldverð með tveimur mönnum á veitingastaðnum Automatic Slims þar sem hann var tíður gestur. Þeir stoppuðu ekki lengi, Hoffman borðaði ostborgara og drakk gos. Barþjónn sagði í samtali við CNN að þetta hefði virst vera viðskiptafundur.

Um kl. 20.00. O'Donnell, barnsmóðir Hoffmans, ræddi við hann í síma. Hann virtist vera í vímu, að hennar sögn. Ekki hefur fengist staðfest að Hoffman hafi verið í samskiptum við aðra eftir þetta símtal.

Sunnudagsmorgunn kl. 9. Hoffman mætti ekki á heimili O'Donnell til að sækja börnin sín. Þetta vakti áhyggjur hennar.

Um kl. 11. O'Donnell hafði samband við vin Hoffmans, leikskáldið David Katz, og bað hann að athuga hvað væri í gangi. Katz og félagi hans fóru strax í íbúð Hoffmans þar sem þeir fundu hann látinn á baðherbergisgólfinu með sprautunál fasta í vinstri handleggnum. Hann var í stuttbuxum og stuttermabol.

Um kl. 11.30. Lögreglan var kölluð á vettvang og kom þangað skömmu síðar. O'Donnell fékk í kjölfarið upplýsingar um það sem hafði gerst.

Í kjölfarið hefur verið upplýst að mikið magn af umslögum, sem talin eru innihalda heróín, fannst í íbúð Hoffmans. Þar fundust einnig notaðar sprautunálar og lyfseðilsskyld lyf.

Philip Seymour Hoffman.
Philip Seymour Hoffman. AFP
Lögreglan fyrir utan íbúð Hoffmans á Manhattan.
Lögreglan fyrir utan íbúð Hoffmans á Manhattan. EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert