Mörg hundruð manns var gert að yfirgefa heimili sín í bænum Steinkjer í Norður-Þrændalögum í Noregi á sjöunda tímanum í morgun þegar eldur kom þar upp í iðnaðarhúsnæði. Í húsinu eru fjölmörg fyrirtæki, en sprengihætta er talin vera mikil af gaskútum sem eru í húsinu.
Nú vinnur slökkvilið og lögregla að því að eyðileggja gaskútana með því að skjóta á þá þannig að gasið leki út áður en eldurinn kemst að þeim.
Öll hús sem eru í innan við 400 metra fjarlægð frá brunanum hafa verið rýmd vegna sprengihættunnar og svæðið hefur verið girt af. Fólkið heldur nú til í ráðhúsi bæjarins og skólahald liggur niðri.
Talið er að byggingin hafi verið mannlaus þegar eldurinn kom upp og ekki er vitað um slys á fólki, samkvæmt frétt norska ríkissjónvarpsins í morgun.
Eldsvoðar hafa verið nokkuð tíðir í Þrændalögum að undanförnu. Eldur kom upp í skóglendi í sveitarfélaginu Flatanger í Norður-Þrændalögum 27. janúar og þann 29. kom upp sinueldur í eyjunni Frøya í Suður-Þrændalögum.