„Ég ætla að lemja úr honum líftóruna,“ sagði rapparinn DMX við slúðursíðuna TMZ en hann var valinn úr hópi 15 þúsund manna sem vildu stíga inn í hnefaleikahring með George Zimmerman í því sem nefnt er hnefaleikakeppni frægðarfólks (e. Celebrity Boxing). Víst er að gríðarlega margir eru spenntir fyrir bardaganaum.
Zimmerman er svo gott sem fyrirlitinn af blökkumönnum eftir að hann skaut til bana óvopnaðan 17 ára gamlan þeldökkan pilt til bana í litlum bæ í Flórída árið 2012. Hann var sýknaður og brutust út mikil mótmæli víða um Bandaríkin vegna sýknudómsins. Margir hafa horn í síðu Zimmermans og sést það best á viðbrögðunum við því þegar auglýst var eftir andstæðingi. Á einni klukkustund bárust eiganda hnefaleikakeppninnar, Damon Feldman, átta þúsund tölvubréf frá fólki sem vildi mæta Zimmerman í hringnum. Þegar upp var staðið valdi Feldman rapparann DMX úr hópi 15 þúsund manna.
Sjálfur átti Zimmerman hugmyndina að því að taka þátt í hnefaleikakeppni frægðarfólks en hnefaleikar eru áhugamál hjá honum. Ekki er vitað hvort DMX hafi það sama áhugamál en í samtali við TMX sagðist hann ekki hika við brjóta reglur hnefaleika í þessum bardaga. Hann sjái rautt þegar hann hugsi til þess að mæta Zimmerman í hringnum.
Tilkynnt verður um það í næstu viku hvenær bardaginn fer fram.