Ekki gleyma mannréttindabrotunum

Maria Alyokhina og Nadezhda Tolokonnikova á blaðamannafundinum í New York.
Maria Alyokhina og Nadezhda Tolokonnikova á blaðamannafundinum í New York. EPA

Meðlimir rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot hvetja gesti vetrarólympíuleikanna í Sotsjí í Rússlandi til að gleyma ekki mannréttindabrotum í landinu, þrátt fyrir hátíðahöldin. „Við viljum að Bandaríkjamenn skoði Rússland gaumgæfilega og sjái landið burtséð frá byggingum og hlutum sem tengjast ólympíuleikunum,“ sagði önnur kvennanna, Maria Alyokhina, á blaðamannafundi í New York í dag. Konurnar munu flytja ræðu á tónleikum á vegum Amnesty International í kvöld. Madonna mun kynna hljómsveitina á svið.

Konurnar voru spurðar hver skilaboð þeirra væru til Baracks Obama Bandaríkjaforseta. Nadezhda Tolokonnikova hvatti Obama til að óttast ekki að segja opinberlega hvað honum fyndist um það sem væri að gerast í Rússlandi.

„Ég myndi spyrja Pútín: Ertu ekki orðinn þreyttur á þessu öllu saman?“ bætti hún svo við um skilaboð sín til forseta Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert