Fjórir í haldi vegna láts Hoffmans

Úr búðarglugga í hverfinu sem leikarinn bjó í.
Úr búðarglugga í hverfinu sem leikarinn bjó í. AFP

Fernt er í haldi lögreglu vegna andláts leikarans Philips Seymours Hoffmans en þau eru talin tengjast sölu á heróíni til leikarans.

CNN hefur eftir lögreglumanni að fólkið, þrír karlar og ein kona, hafi verið handtekið í gærkvöldi og við húsleit hafi fundist 350 umslög með eiturlyfjum, væntanlega heróíni.

Þegar lögregla kom á vettvang í íbúð Hoffmans á sunnudag fann hún leikarann liggjandi á baðherbergisgólfinu með sprautunál í vinstri handleggnum. Hann var klæddur í stuttbuxur og stuttermabol og með gleraugun enn á höfðinu.

Alls fundust tæplega 50 umslög í íbúðinni með efni í sem talið er að sé heróín. Eins fundust margar sprautunálar, lyfseðilsskyld lyf og tóm dópumslög.

Fyrstu niðurstöður úr rannsókn á heróíni sem fannst í íbúðinni benda til þess að ekkert fentanil sé að finna í efninu sem fannst í umslögunum. Fentanil er sterkt verkjalyf sem krabbameinssjúklingar nota við verkjum.

Í síðustu viku greindu yfirvöld í Maryland frá því að heróín, blandað fentanil, hefði dregið að minnsta kosti 37 til dauða frá því í september. Í síðasta mánuði létust 22 í Pennsylvaníu eftir að hafa tekið inn slíka lyfjablöndu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert