Krufning Philips Seymours Hoffmans þykir ófullnægjandi. Gera þarf fleiri rannsóknir áður en hægt verður að úrskurða um banamein hans. AFP-fréttastofan greinir frá þessu. Talsmaður leikarans staðfesti í samtali við fréttastofuna að krufningunni væri lokið en meinafræðingar hefðu ekki komist að niðurstöðu um banamein hans.
Lík leikarans var krufið á mánudag, en hann fannst látinn sl. sunnudag á baðherbergi í íbúð sem hann leigði. Þegar lögregla kom á vettvang í íbúð Hoffmans á sunnudag fann hún leikarann liggjandi á baðherbergisgólfinu með sprautunál í vinstri handleggnum.
Alls fundust tæplega 50 umslög í íbúðinni með efni í sem talið er að sé heróín. Eins fundust margar sprautunálar, lyfseðilsskyld lyf og tóm dópumslög.
Fernt er nú í haldi lögreglu vegna andláts leikarans, en þau eru talin tengjast sölu á heróíni til hans. Um er að ræða fjóra menn, 22 ára, 48 ára og 57 ára og 22 ára konu. Fólk hafði mikið magn af heróíni í fórum sínum.