Hoffman fórnarlamb fíkniefnabanns

Breski skemmtikrafturinn Russell Brand.
Breski skemmtikrafturinn Russell Brand. AFP

Breski skemmtikrafturinn Russell Brand segir að bandaríski leikarinn Philip Seymour Hoffman, sem fannst látinn á heimili sínu á sunnudaginn, hafi verið fórnarlamb „asnalegra laga“ sem kveði á um bann við fíkniefnum.

Í grein á vef breska blaðsins Guardian segir hann að dauði Hoffmans sé áminning um að við séum að gera eitthvað rangt.

Hoffman lést eftir að hafa tekið of stóran skammt af eiturlyfjum og segir Russell að vel hefði verið hægt að koma í veg fyrir dauða hans ef nálgun stjórnvalda hefði verið önnur.

„Við vitum ekki hvernig við eigum að koma fram við fíkniefnasjúklinga,“ segir hann. Stjórnvöld líti á þá sem glæpamenn.

„Ef fíkniefni eru ólögleg eru þeir sem neyta þeirra glæpamenn,“ útskýrir hann í greininni. „Þetta er merkilegur atburður í sögunni; við vitum að bannstefnan virkar ekki. Við vitum að þeir sem skrifa löggjöfina fylgjast ekki með og hafa ekki hugmynd um hvernig eigi að finna lausn á þessum vanda,“ segir hann meðal annars.

Segir Russell að fólk muni ávallt neyta fíkniefna og að bannið hafi engin áhrif á langt leidda fíkniefnaneytendur. Hins vegar verði til undirheimahagkerfi sem lúti engum lögum og reglum, sé stjórnað af glæpamönnum og velti gríðarlegum fjárhæðum á degi hverjum.

Russell bendir jafnframt á árangur ríkja eins og Portúgals og Sviss sem hurfu frá strangri fíkniefnalöggjöf á sínum tíma. Síðan þá hafi glæpum, sem og dauðsföllum tengdum neyslunni, fækkað mjög í ríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert