Hvað gerði hann við líkið?

00:00
00:00

Heim­för skip­brots­manns­ins Joses Sal­vadors Al­var­enga hef­ur verið frestað um sinn af heilsu­fars­ástæðum. Fjöl­skylda fé­laga hans, sem var með hon­um um borð í bátn­um fyrstu vik­ur hremm­ing­anna, vill fá skýr svör um dauða hans.

Al­var­enga dvel­ur nú á Mars­hall-eyj­um en þangað kom hann eft­ir að hafa rekið um Kyrra­hafið í 13 mánuði. Hann er 37 ára gam­all og frá El Sal­vador en fór á veiðar frá smá­bæ í Mexí­kó í des­em­ber 2012. Vonsku­veður skall á og hann og 15 ára fé­laga hans tók að reka á haf út.

Til stóð að Al­var­enga, sem var við ótrú­lega góða heilsu er hann kom loks í land, færi til Mexí­kó á morg­un, föstu­dag. Hins veg­ar ráðleggja lækn­ar hon­um nú að bíða með heim­ferð þar sem hann þjá­ist enn af ofþorn­un.

Christian Clay Mendoza, starfsmaður mexí­kóska sendi­ráðsins í Manila og talsmaður Al­var­enga, seg­ir að hann þurfi meiri tíma til að jafna sig.

„Við verðum að huga að heilsu hans, að hann sé í standi til að ferðast og við verðum að fara eft­ir til­mæl­um lækn­anna. Við von­um að hann kom­ist heim á næstu 3-4 dög­um.“

Al­var­enga hef­ur verið á sjúkra­húsi í Maj­uro, höfuðborg Mars­hall-eyja, frá því að hon­um skolaði á land fyr­ir viku, í rifn­um nær­bux­um ein­um fata.

Hann kom á blaðamanna­fund á þriðju­dag og átti þá erfitt með gang.

„Ég vil þakka stjórn­völd­um á Mars­hall-eyj­um fyr­ir allt sem hef­ur verið gert fyr­ir mig og vin­um sem hafa aðstoðað mig meðan ég hef dvalið hérna,“ sagði hann í stuttri yf­ir­lýs­ingu. Hann svaraði eng­um spurn­ing­um á fund­in­um.

„Hann hef­ur gengið í gegn­um margt og er enn að jafna sig þó að heils­an sé nokkuð góð,“ sagði talsmaður hans. 

Al­var­enga seg­ist hafa lifað á fiski, skjald­bök­um og fugl­um. Þá seg­ist hann hafa drukkið skjald­böku­blóð og safnað regn­vatni.

Ut­an­rík­is­ráðherra Mars­hall-eyja seg­ir að enn sé verið að rann­saka sögu hans og fá ýmsa kafla henn­ar staðfesta. Hingað til hafi allt staðist sem kannað hef­ur verið.

En einn þátt sög­unn­ar gæti verið erfitt að rann­saka. Al­var­enga var ekki einn á ferð. Með hon­um var að hans sögn ung­ur maður, hinn 15 ára gamli Xigu­el. Al­var­enga seg­ir að hann hafi ekki haldið niðri hrá­um fiski, síðan neitað að borða og að lok­um dáið.

Fjöl­skylda unga manns­ins seg­ir hins veg­ar við AFP-frétta­stof­una að hann hafi heitið Ezequiel og verið 24 ára. Þau segj­ast ekki trúa því að hann hafi neitað að næra sig.

„Við vilj­um að Al­var­enga komi hingað, að rík­is­stjórn­in komi með hann hingað,“ seg­ir bróðir Ezequiels, Romeo Cor­doba Rios. Fjöl­skyld­an vill hins veg­ar ekki að málið verði rann­sakað sem glæp­ur. „Þetta var slys,“ seg­ir bróðir­inn.

„Það eina sem við vilj­um vita er hvað það síðasta sem hann sagði þess­um manni var og hvað maður­inn gerði við lík bróður míns.“ Hann seg­ir að móðirin gráti nú son sinn. 

Fjöl­skyld­an seg­ir að Ezequiel hafi í raun ekki þekkt Al­var­enga og hafi aðeins á síðustu stundu ákveðið að fara með hon­um í hina ör­laga­ríku veiðiferð.

Sjó­maður í þorp­inu þaðan sem fé­lag­arn­ir fóru til veiða seg­ir Al­var­enga góðan mann sem hafi borðað furðulega hluti.

„Hann var ekki mat­vand­ur. Hann át allt,“ seg­ir sjó­maður­inn. „Við telj­um að það hafi orðið hon­um til lífs.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert