Hvað gerði hann við líkið?

Heimför skipbrotsmannsins Joses Salvadors Alvarenga hefur verið frestað um sinn af heilsufarsástæðum. Fjölskylda félaga hans, sem var með honum um borð í bátnum fyrstu vikur hremminganna, vill fá skýr svör um dauða hans.

Alvarenga dvelur nú á Marshall-eyjum en þangað kom hann eftir að hafa rekið um Kyrrahafið í 13 mánuði. Hann er 37 ára gamall og frá El Salvador en fór á veiðar frá smábæ í Mexíkó í desember 2012. Vonskuveður skall á og hann og 15 ára félaga hans tók að reka á haf út.

Til stóð að Alvarenga, sem var við ótrúlega góða heilsu er hann kom loks í land, færi til Mexíkó á morgun, föstudag. Hins vegar ráðleggja læknar honum nú að bíða með heimferð þar sem hann þjáist enn af ofþornun.

Christian Clay Mendoza, starfsmaður mexíkóska sendiráðsins í Manila og talsmaður Alvarenga, segir að hann þurfi meiri tíma til að jafna sig.

„Við verðum að huga að heilsu hans, að hann sé í standi til að ferðast og við verðum að fara eftir tilmælum læknanna. Við vonum að hann komist heim á næstu 3-4 dögum.“

Alvarenga hefur verið á sjúkrahúsi í Majuro, höfuðborg Marshall-eyja, frá því að honum skolaði á land fyrir viku, í rifnum nærbuxum einum fata.

Hann kom á blaðamannafund á þriðjudag og átti þá erfitt með gang.

„Ég vil þakka stjórnvöldum á Marshall-eyjum fyrir allt sem hefur verið gert fyrir mig og vinum sem hafa aðstoðað mig meðan ég hef dvalið hérna,“ sagði hann í stuttri yfirlýsingu. Hann svaraði engum spurningum á fundinum.

„Hann hefur gengið í gegnum margt og er enn að jafna sig þó að heilsan sé nokkuð góð,“ sagði talsmaður hans. 

Alvarenga segist hafa lifað á fiski, skjaldbökum og fuglum. Þá segist hann hafa drukkið skjaldbökublóð og safnað regnvatni.

Utanríkisráðherra Marshall-eyja segir að enn sé verið að rannsaka sögu hans og fá ýmsa kafla hennar staðfesta. Hingað til hafi allt staðist sem kannað hefur verið.

En einn þátt sögunnar gæti verið erfitt að rannsaka. Alvarenga var ekki einn á ferð. Með honum var að hans sögn ungur maður, hinn 15 ára gamli Xiguel. Alvarenga segir að hann hafi ekki haldið niðri hráum fiski, síðan neitað að borða og að lokum dáið.

Fjölskylda unga mannsins segir hins vegar við AFP-fréttastofuna að hann hafi heitið Ezequiel og verið 24 ára. Þau segjast ekki trúa því að hann hafi neitað að næra sig.

„Við viljum að Alvarenga komi hingað, að ríkisstjórnin komi með hann hingað,“ segir bróðir Ezequiels, Romeo Cordoba Rios. Fjölskyldan vill hins vegar ekki að málið verði rannsakað sem glæpur. „Þetta var slys,“ segir bróðirinn.

„Það eina sem við viljum vita er hvað það síðasta sem hann sagði þessum manni var og hvað maðurinn gerði við lík bróður míns.“ Hann segir að móðirin gráti nú son sinn. 

Fjölskyldan segir að Ezequiel hafi í raun ekki þekkt Alvarenga og hafi aðeins á síðustu stundu ákveðið að fara með honum í hina örlagaríku veiðiferð.

Sjómaður í þorpinu þaðan sem félagarnir fóru til veiða segir Alvarenga góðan mann sem hafi borðað furðulega hluti.

„Hann var ekki matvandur. Hann át allt,“ segir sjómaðurinn. „Við teljum að það hafi orðið honum til lífs.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert