Reknar úr Pussy Riot

Maria Aljokhina og Nadesjda Tolokonnikova.
Maria Aljokhina og Nadesjda Tolokonnikova. AFP

Nadesjda Tolokonnikova og Maria Aljokhina voru í dag reknar úr hljómsveitinni Pussy Riot. Þær sátu báðar í rússneskum fangabúðum í tæp tvö ár fyrir pönkmessu sem þær fluttu í kirkju í Moskvu í febrúar 2012. Þeim var veitt sakaruppgjöf í desember á síðasta ári.

Sex liðsmenn sveitarinnar sendu frá sér yfirlýsingu í kvöld þar sem fjölmiðlar voru beðnir um hætta að leggja nafn sveitarinnar við Nadesjdu og Maríu. Þær hefðu misst sjónar á grunngildum Pussy Riot, femínisma og baráttu gegn harðstjórn. Nadesjda og María ættu sér nú ný baráttumál, að berjast fyrir réttindum fanga.

Undir yfirlýsinguna skrifa Garadja, Fara, Shaiba, Cat, Seraphima og Schumacher en þær kjósa að koma ekki fram undir eigin nöfnum.

Nadesjda og María komu fram á tónleikum Amnesty International í New York í gærkvöldi við fögnuð þúsunda tónleikagesta, þar á meðal Madonnu. Þar létu þær Vladimír Pútín, forseta Rússlands, heyra það. Gagnrýndu meðlimir Pussy Riot þetta í yfirlýsingunni.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert