Á Pussy Riot bretti í Sotsjí

Alexey Sobolev með brettið umdeilda eftir að hann hafði lokið …
Alexey Sobolev með brettið umdeilda eftir að hann hafði lokið keppni í gær. AFP

Rússneski brettakappinn Alexey Sobolev keppti fyrir hönd lands síns á Ólympíuleikunum í Sotsjí í gær og vakti bretti hans nokkra athygli, en það er prýtt mynd af konu með grímu fyrir andlitinu sem heldur á hníf og líkist hún mjög meðlimum rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot.

Tvær liðskonur sveitarinnar voru dæmdar til vistar í fangabúðum vegna pönkmessu sem þær fluttu í kirkju í Moskvu árið 2012, en í messunni ákölluðu þær Maríu guðsmóður og báðu hana um að losa Rússland við Pútín forseta. Síðan þá hafa þær orðið tákngervingar mannréttindabaráttu í Rússlandi.

Sobolev var spurður hvort myndin á brettinu væri leið til að mótmæla stöðu mannréttindamála í Rússlandi, sem mjög hafa verið í brennidepli að undanförnu. Hann svaraði hann engu til um það. „Ég hannaði ekki brettið,“ svaraði hann. Spurður um hvort hann styddi málstað Pussy Riot sagðist hann ekki ætla að svara spurningunni.

Alexey Sobolev í keppni í gær.
Alexey Sobolev í keppni í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert