Birtist Hoffman í Hungurleikunum?

Philip Seymour Hoffman
Philip Seymour Hoffman AFP

Philip Seymour Hoffman hafði ekki lokið tökum á seinni myndinni sem gerð er eftir þriðju bók Suzanne Collins um Hungurleikana, Mockingjay eða Hermiskaða, þegar hann lést. Tæknin gæti þó gert honum kleift að birtast í að minnsta kosti einu af atriðunum sem átti eftir að taka upp með aðstoð tæknibrellna og annarrar tækni.

Hoffmann hafði þegar lokið tökum á þriðju kvikmyndinni en átti sjö daga eftir við töku á þeirri fjórðu, sem byggð er á seinni hluta þriðju bókarinnar.

Í tilkynningu frá Lionsgate, kvikmyndaverinu sem framleiðir myndirnar, skömmu eftir andlát leikarans kom fram fram að andlát hans myndi ekki hafa áhrif á frumsýningar myndanna tveggja sem gerðar verða eftir þriðju bókinni. Talsmaður Lionsgate neitaði að tjá sig um málið þegar AFP-fréttastofan spurðist fyrir um það í dag.

Útför Hoffmans fór fram í dag í kyrrþey. Fór hún fram í Kirkju heilags Ignatius Loyola á Manhattan og fengu 400 manns að vera viðstaddir athöfnina. Síðar í mánuðinum verður haldin minningarathöfn um Hoffman og verður fleirum boðið til þeirrar athafnar en nú.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert