Stefnt að samningum um Kýpur

Nicos Anastasiades, forseti Kýpur (t.v.) tekur í hönd Dervis Eroglu, …
Nicos Anastasiades, forseti Kýpur (t.v.) tekur í hönd Dervis Eroglu, leiðtoga Kýpur-Tyrkja, á fundi Sameinuðu þjóðanna í nóvember síðastliðnum. STAVROS IOANNIDES

Kýpur-Grikkir og Kýpur-Tyrkir hafa samþykkt vegvísi Sameinuðu þjóðanna til undirbúnings því að hefja aftur viðræður um sameiningu eyjarinnar í eitt ríki. Í tilkynningu frá forsetaembætti Norður-Kýpur segir að búist sé við að viðræðurnar hefjist á ný í næstu viku. 

Viðræður um sameiningu Kýpur, sem hefur verið skipt í tvö ríki í um fjörutíu ár, hafa legið í dvala síðustu tvö árin, eða eftir að Kýpur tók við forsæti í Evrópusambandinu árið 2012. Í vikunni hafa samningamenn frá gríska og tyrkneska hluta eyjarinnar hins vegar lagt hart að sér til þess að semja sameiginlega yfirlýsingu svo viðræðurnar geti hafist að nýju.

Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, sagði fyrr í dag að hann styddi við friðarferlið, sem væri eitt af forgangsmálum í utanríkisstefnu Grikklands. Samaras sagði einnig að setja ætti niðurstöðu viðræðnanna í almenna þjóðaratkvæðagreiðslu til að tryggja að sem flestir gætu tekið undir hana. 

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, lýsti yfir óbilandi stuðningi yfirvalda í Washington við að finna lausn á deilunni í Kýpur, og sagðist hann í símtali við Samaras hlakka til þess að viðræðurnar hæfust á ný. 

Kýpur hefur verið tvískipt síðan Tyrkland gerði innrás í landið árið 1974, en innrásin var viðbragð við stjórnarbyltingu sem stefndi að því að færa landið undir Grikkland. Kýpur gekk í Evrópusambandið árið 2004, eftir að tilraunir til þess að sameina eyjuna í eitt ríki fóru út um þúfur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert