Robert Vineberg, 57 ára, lék á saxófón á plötu Winehouse Frank árið 2003. Hoffman lést á sunnudag úr ofneyslu heróíns og er Vineberg í haldi lögreglu grunaður um að selt Hoffman heróínið ásamt fleirum. Winehouse, sem lést árið 2011 27 ára að aldri átti við áfengis- og vímuefnafíkn að stríða.
Samkvæmt Times á Vineberg að hafa spilað með tónlistarmönnum eins og David Bowie, Mick Jagger og Tom Jones.
Lögreglan handtók fyrr í vikunni þrjár karla og eina konu í tengslum við andlát Hoffman. Um 350 umslög með heróíni fundust í íbúð Vineberg en samkvæmt heimildum CNN er um aðra gerð af efnablöndu en fannst í íbúð Hoffmans.
Þau sem lögregla handtók á þriðjudag auk Vineberg heita Juliana Luchkiw og Max Rosenblum, bæði 22 ára, og Thomas Cushman, 48 ára.
Luchkiw neitaði sök er hún kom fyrir dómara í gærkvöldi og verjandi Luchkiw sagði dómaranum að skjólstæðingur hans hefði aldrei komist í kast við lögin. Verjandinn tók fram að faðir Luchkiw væri lögfræðingur og móðirin læknir.
Luchkiw var látin laus í gærkvöldi en gert að mæta fyrir dómara á ný þann 14. febrúar. Kókaín fannst á heimili hennar og eitthvað sem talið er vera leifar heróíns en að sögn lögmanns hennar hefur hún aldrei komið nálægt sölu á fíkniefnum.
Rosenblum mætti einnig fyrir dómara í gærkvöldi en hann hefur hins vegar áður komist í kast við lögin í tengslum við fíkniefni. Hann var einnig látinn laus en var gert að greiða tryggingu sem fjölskylda hans greiddi fyrir hann í gærkvöldi. Hann mun búa á heimili foreldra sinna þangað til rannsókn málsins lýkur. Hann neitaði einnig að hafa selt Hoffman fíkniefni.
Símanúmer Hoffmans fannst í síma Vineberg og fannst mikið magn heróíns, 350 skammtar, í íbúð hans.
Cushman hafði áður verið látinn laus enda taldi saksóknari ekki hægt að tengja hann á nokkurn hátt við málið.