Trierweiler í mál við Closer

Valerie Trierweiler
Valerie Trierweiler AFP

Valerie Trierweiler, fyrrverandi sambýliskona Francois Hollande, forseta Frakklands, ætlar að höfða mál á hendur tímaritinu Closer, en það birti í dag myndir af henni sem voru teknar strönd á Máritíus. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Trierweiler sendi til AFP-fréttastöðvarinnar.

Myndirnar sýna Trierweiler ásamt tveimur vinkonum hennar slaka á í sundfötum á eyjunni Máritíus í Indlandshafi. Blaðið kom út í dag, fjórum vikum eftir að Closer sagði frá því að Hollande hefði haldið framhjá Trierweiler með leikkonunni Julie Gayet.

Samkvæmt heimildum Closer leigðu konurnar glæsilegt einbýlishús á ströndinni eftir að Trierweiler kom heim úr ferð sinni til Indlands fyrr í þessum mánuði. Hún fór í ferðina daginn eftir að Hollande tilkynnti að sambandi þeirra væri lokið.

Rithöfundurinn Valerie de Senneville og leikkonan Saida Jawad, vinkonur Trierweiler, ætla einnig að höfða mál á hendur blaðinu.

Á ferð sinni um Ítalíu sagði Trierweiler að hún hefði ekki útilokað að gefa út bók um tímann með Hollande.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert