Bandaríska leikaranum Philip Seymour Hoffman var annt um að vernda einkalíf sitt og verður útförin í hans anda - í kyrrþey.
Útförin fer fram í dag í Kirkju heilags Ignatius Loyola á Manhattan og fá 400 manns að vera viðstaddir athöfnina. Síðar í mánuðinum verður haldin minningarathöfn um Hoffman og verður fleirum boðið til þeirrar athafnar en nú. Í þessari sömu kirkju var Jacqueline Kennedy Onassis jarðsungin.
Hoffman, 46 ára, fannst látinn á sunnudag vegna ofneyslu heróíns. Hann lætur eftir sig sambýliskonu, Mimi O'Donnell, en þau bjuggu þó ekki saman þegar hann lést, og þrjú börn.
Ekki liggur fyrir hvað dró hann nákvæmlega til dauða en hann fannst liggjandi á baðherbergisgólfi íbúðar sinnar með sprautunál í handleggnum. Mikið magn umslaga með heróíni fannst í íbúð hans.
Í gærkvöldi komu fjölskylda hans og nánir vinir saman í útfararstofu Franks E. Campbells á Manhattan. Meðal þeirra sem þangað komu var leikkonan Amy Adams, sem lék með Hoffman í myndunum Doubt og The Master. Eins voru Cate Blanchett, Joaquin Phoenix, Justin Theroux og Diane Sawyer meðal gesta.
Hoffman var tilnefndur til Óskarsverðlauna fjórum sinnum og hlaut verðlaunin fyrir bestan leik í aðalhlutverki árið 2006 í hlutverki rithöfundarins Trumans Capotes í kvikmyndinni Capote. Hann var tilnefndur þrisvar til Tony-verðlaunanna. Ferill Hoffmans spannaði yfir tuttugu ár og fimmtíu kvikmyndir auk þess sem hann lék á sviði og leikstýrði.
Á miðvikudagskvöldið minntist starfsfólk leikhúsanna við Broadway hans með því að slökkva ljósin í mínútu.