Á fimm Bentley og tíu Ferrari

Dang Le Nguyen Vu.
Dang Le Nguyen Vu.

Dang Le Nguyen Vu, stærsti kaffiútflytjandi í Víetnam, er í hópi ríkustu manna heims, en hann á fimm Bentley-bifreiðar og tíu Ferrari. Að mati Forbes eru eigur hans metnar á meira en 100 milljónir dollara.

Það kann að vekja undrun að maður í kommúnistaríki nái að komast yfir svo mikinn auð, en það hefur Vu náð að gera eftir að stjórnvöld í Víetnam ákváðu að hverfa frá samyrkjubúskap í kaffiræktun árið 1986. Þá stefndi í algert öngþveiti í efnahagsmálum landsins og því ákváðu stjórnvöld í Víetnam að úthluta landi til bænda og láta þá sjálfa sjá um reksturinn. Í kjölfarið jókst kaffiframleiðsla í Víetnam gríðarlega, en landið er í dag eitt mesta kaffiframleiðsluland heims.

Árið 1994 voru um 60% íbúa Víetnam undir fátæktarmörkum, en nú er talið að innan við 10% landsmanna séu undir þessum mörkum.

Þessi mikla kaffirækt hefur hins vegar reynt mikið á náttúru landsins. Skóglendi hefur minnkað mikið þegar skógar hafa verið ruddir í þeim tilgangi að taka landið undir kaffirækt. Þá er talið að áburðarnotkun sé allt of mikil við kaffiræktunina.

Kaffið sem Víetnamar rækta er frekar ódýrt. Fáir hafa orðið mjög ríkir af þessari framleiðslu, en þeir eru þó til. Dang Le Nguyen Vu veit ekki aura sinna tal. Í viðtali við BBC fyrir skömmu hældi hann sér af því að eiga fimm Bentley-bifreiðar og tíu Ferrari. Ekki er algengt að þeir sem eru mjög ríkir veiti að eigin frumkvæði upplýsingar um auð sinn, en Vu þarf ekki að óttast gagnrýni í fjölmiðlum í heimalandi sínu. Þar er lítið um gagnrýni á stjórnvöld eða þá sem stjórna helstu fyrirtækjum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert