Útför bandaríska leikarans Philips Seymours Hoffmans fór fram í gær. Hún var í kyrrþey og fór fram í Kirkju heilags Ignatius Loyala á Manhattan. Um 400 manns voru viðstaddir athöfnina en síðar í mánuðinum verður haldin minningarathöfn um Hoffman. Verður þá fleirum boðið en nú.
Stjörnuleikkonur á borð við Meryl Streep og Cate Blanchett voru viðstaddar athöfnina sem og Ethan Hawke, Joaquin Phoenix, Julianne Moore og Michelle Williams, svo eitthvað sé nefnt, að því er fram kemur í frétt AFP.
Hoffman, 46 ára, fannst látinn á sunnudag vegna ofneyslu heróíns. Hann lætur eftir sig sambýliskonu, Mimi O'Donnell, en þau bjuggu þó ekki saman þegar hann lést, og þrjú börn.
Ekki liggur fyrir hvað dró hann nákvæmlega til dauða en hann fannst liggjandi á baðherbergisgólfi íbúðar sinnar með sprautunál í handleggnum. Mikið magn umslaga með heróíni fannst í íbúð hans.