„Ég drap hann ekki og ég hefði ekki getað bjargað honum,“ segir Robert Vineberg, einn þeirra sem handteknir voru í tengslum við rannsókn á dauða Philips Seymours Hoffmans. Leikarinn fannst látinn sl. sunnudag og er talið að hann hafi tekið of stóran skammt af heróíni. Krufning hefur farið fram en hún þótti ekki fullnægjandi og því verða gerðar fleiri rannsóknir áður en hægt verður að staðfesta banamein hans.
Blaðamaður New York Post heimsótti Vineberg í fangelsi, en hann situr nú í gæsluvarðhaldi. Robert Vineberg, 57 ára, lék á saxófón á plötu Winehouse Franks árið 2003.
„Ef ég hefði vitað að hann væri í bænum hefði ég stungið upp á því að fara á AA-fund. Ef ég hefði verið með honum hefði þetta ekki gerst. Ekki á minni vakt,“ segir Vineberg, en þeir Hoffmann höfðu þekkst í rúmt ár.
Vineberg hefur áður neitað að hafa selt pokana 73 af heróíni sem fundust í íbúð Hoffmans. Hann vildi þó ekki svara því hvort hann hefði selt Hoffman eiturlyf í gegnum tíðina.
Í viðtalinu segist Vineberg síðast hafa séð Hoffman í október og hafi leikarinn þá verið undir áhrifun eiturlyfja. Í kjölfarið hafi hann farið í 28 daga meðferð og því næst ferðast til Atlanta vegna vinnu við Hungurleikana.
Vineberg segir að þeir félagarnir hafi síðast rætt saman í desember í gegnum tölvupóst og sms. Símanúmer Hoffmans fannst í síma Vinebergs og tveggja annarra. „Hann sendi mér skilaboð í desember og sagðist vera edrú,“ segir Vineberg og fullyrðir að Hoffman hafi notað tíu poka af heróíni á hverjum degi.