Loks á heimleið eftir mánuði á sjó

Jose Salvador Alvarenga hefur nú rakað sig og klippt hárið. …
Jose Salvador Alvarenga hefur nú rakað sig og klippt hárið. Hann snýr aftur til El Salvador í dag. AFP

Skipbrotsmaðurinn Jose Salvador Alvarenga fer til El Salvador í dag en hann hefur undanfarna daga dvalið á sjúkrahúsi á Marshall-eyjum eftir að hafa rekið um Kyrrahafið í 13 mánuði. Alvarenga átti að fara heim fyrir helgi en þá var heilsa hans ekki nógu góð.

Tólf dagar eru liðnir frá því að Alvarenga kom að Marshall-eyjum. Hann hafði þá ekki séð til lands í 13 mánuði eða frá því að hann tók að reka á haf út. 

Hann er sagður mjög þreyttur og var um helgina fluttur um set á eyjunum til að hlífa honum við ágangi fjölmiðla. 

Alvarenga mun líklega fljúga til Havaí og þaðan til heimalandsins, El Salvador. Þar mun hann hitta fjölskyldu sína, m.a. foreldra, bróður og dóttur. Þau heldu að hann væri látinn enda höfðu þau ekki heyrt frá honum í mörg ár. 

Alvarenga er 37 ára. Hann hafði orðið fyrir miklum vökvaskorti á ferðalaginu. Hann segist hafa veitt sér til matar og m.a. drukkið skjaldbökublóð og safnað regnvatni.

Í síðustu viku sagði Alvarenga frá því að félagi hans, sem talinn er vera hinn 24 ára gamli Ezequiel Cordoba, hefði ekki getað haldið niðri hráum fiski og dáið. Talið er að bát þeirra hafi rekið um 12.500 kílómetra frá ströndum Mexíkó.

Alvarenga virtist við góða heilsu er hann kom loks að landi. Hann átti þó erfitt með gang og var með verki í baki. Franklyn House, læknir á eftirlaunum sem hitti Alvarenga í síðustu viku, segir að hann hafi dregið sig sífellt meira í hlé og virðist þjást af áfallastreituröskun.

Hann flutti til Mexíkó fyrir mörgum árum og dvaldi þar án allra tilskilinna leyfa. Hann vann m.a. við hákarla- og rækjuveiðar og var einmitt í slíkri veiðiferð í desember árið 2012 er vonskuveður skall á og bátinn tók að reka. 

Alvarenga vill gjarnan snúa aftur til Mexíkó en verður fyrst að fara til El Salvador til að sækja um dvalarleyfi.

Foreldrar hans búa í vesturhluta El Salvador. Þau segja það kraftaverk að sonur þeirra sé enn á lífi en hjá þeim býr 14 ára dóttir hans, Fatima. Hún man lítið eftir föður sínum. 

Alvarenga sagðist hafa íhugað sjálfsvíg á ferðalaginu, sérstaklega eftir að félagi hans lét lífið. Hann hafi hins vegar saknað fjölskyldunnar og það hafi orðið til þess að hann lifði.

„Við munum elda fyrir hann mikla máltíð en engan fisk því ég held hann hljóti að vera orðinn leiður á honum,“ segir móðir hans við AFP-fréttastofuna. „En hann fær stóran disk af kjöti, baunum og osti til að ná kröftum.“

Báturinn sem bar Alvarenga yfir Kyrrahafið.
Báturinn sem bar Alvarenga yfir Kyrrahafið. AFP
Alvarenga við komuna til Marshall-eyja.
Alvarenga við komuna til Marshall-eyja. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert