Truflar homminn hjartsláttinn?

Liðsfélagi Michaels Sam fagnar honum eftir sigur í leik á …
Liðsfélagi Michaels Sam fagnar honum eftir sigur í leik á síðasta ári. Sam er til hægri á myndinni. EPA

„Að vera hommi í NFL-deildinni er erfiðara en í öðrum íþróttagreinum, það eru fleiri strákar í búningsklefanum í einu og því fleiri ólíkar manngerðir. En ég held að það mikilvægasta fyrir viðkomandi sé að finna að liðsfélagarnir styðji hann,“ segir Donte Stallworth, sem lék ruðning í NFL-deildinni í tíu ár. Michael Sam, sem leikið hefur með ruðningsliði Missouri-háskóla við góðan orðstír og er nú á leið í NFL-deildina, opinberaði samkynhneigð sína í viðtali í New York Times á sunnudag. Verði hann valinn í nýliðavalinu sem fram fer í maí verður hann fyrsti opinberlega samkynhneigði leikmaður deildarinnar. Stjórn NFL-deildarinnar gaf út yfirlýsingu á mánudag þar sem hún sagðist dást að hugrekki og heiðarleika Sams. „Michael er fótboltamaður. Allir leikmenn með getu og metnað geta náð árangri í NFL. Við hlökkum til að bjóða Sam velkominn í deildina og að styðja hann.“

Stallworth var spurður í viðtali við Huffingtonpost hvernig homma yrði tekið í NFL-deildinni. „Ég hef leikið með mörgum liðum og strákunum er alveg sama hvað er í gangi hjá þér utan búningsklefans, aðeins að þú gerir það sem þú getur til að hjálpa liðinu að vinna. Ég held að það sé það sem skiptir þá mestu máli. En það væri einföldun hjá mér að segja að það myndu ekki koma upp einhver vandamál. Því er það mjög mikilvægt að hafa góðan leiðtoga í liðinu.“

Ekki hafa allir tekið yfirlýsingu Sams fagnandi. Kanadíska ruðningssambandið hefur sektað tvo leikmenn sína fyrir að nota samfélagsmiðla til þess að koma neikvæðum ummælum um Michael Sam á framfæri. Þá sagði faðir hans að jafnvel þó að hann væri stoltur af syni sínum vildi hann ekki að barnabörn sín myndu alast upp „í þessu umhverfi“.

Á mánudag, daginn eftir að Sam kom út úr skápnum, féll hann um sjötíu sæti á styrkleikalista nýliða sem reyna að komast inn í NFL-deildina á þessu ári. Sam var í 90. sæti en féll niður í það 160. Staða hans hefur lagast síðan þá og NFLDraftScout.com setur hann nú í 110. sæti listans.

En var það játning hans sem hafði þessi áhrif? Í og með, segir Rob Rang, íþróttafréttamaður á CBS. „Tilkynning hans mun hafa áhrif á stöðu hans í vali nokkurra liða,“ skrifar hann en bendir einnig á að fyrir yfirlýsinguna hafi útsendarar liðanna velt því fyrir sér hvort hann væri nógu hávaxinn til að spila vörn í NFL-deildinni.

Rang telur að NFL-deildin sé tilbúnari nú en áður að „samþykkja“ samkynhneigðan leikmann. Hins vegar votti fyrir reglunni „ekki spyrja, ekki segja frá“ innan hennar, líkt og í bandaríska hernum þar til fyrir skemmstu. „Þetta snýst ekki um samkynhneigð Sams. Það eru samkynhneigðir leikmenn í NFL núna og þjálfarar og aðrir vita af því. En með því að koma út úr skápnum hefur Sam beint mjög sterku kastljósi að sjálfum sér.“

Hins vegar ætti það ekki að koma að sök að mati Rangs - ruðningsliðin vilja vera í sviðsljósinu. 

Nokkrir leikmenn NFL-deildarinnar hafa tjáð sig opinberlega um yfirlýsingu Sams. Margir hafa sýnt honum stuðning. Aðrir segja einfaldlega að þeim sé slétt sama um kynhneigð liðsfélaganna og enn aðrir vonast til þess að Sam verði öðrum samkynhneigðum fyrirmynd svo að þeir geti með stolti verið þeir sjálfir. 

Yfirmenn og þjálfarar í deildinni hafa einnig sagt sína skoðun og átta þeirra undir nafnleynd í grein á vef Sportsillustrated. Greinin birtist daginn eftir að Sam kom út úr skápnum og spáðu viðmælendurnir því að hann myndi falla á styrkleikalistanum í kjölfarið - sem varð raunin. „Þó að enginn þeirra vilji beinlínis fordæma ákvörðun Sams litast skoðanir þeirra af NFL-menningunni þar sem opinberlega samkynhneigður maður - úr liðsvalinu og inn í búningsklefann - endar á erfiðri og einmanalegri braut,“ segir í greininni. „Ég held að ruðningur sé ekki tilbúinn fyrir opinberlega samkynhneigðan leikmann,“ segir einn starfsmaður NFL-deildarinnar. 

Aðstoðarþjálfari í deildinni segir að ákvörðun liða um að velja Sam muni m.a. byggjast á því hversu sátt þau eru við mögulega truflun á „dýnamíkinni“ í búningsklefunum.

„Það eru strákar í búningsklefum sem eru óþroskaðir og geta ekki höndlað tilhugsunina um þetta,“ segir þjálfarinn. „Það er ekkert eins viðkvæmt og hjartslátturinn í búningsklefanum. Ef þú vísvitandi kemur með einhvern þar inn með þessa kynhneigð, hvernig eiga hinir strákarnir að takast á við það? Þetta verður mikil truflun. Það er staðreynd. Það ætti ekki að vera það, en það mun verða það.“

Sam hefur lýst því að liðsfélagar hans í Háskólanum í Missouri hafi tekið fréttunum vel. Hann sagði þeim frá samkynhneigð sinni á síðasta ári. En er Sam að taka óþarfa áhættu með fótboltaferil sinn með því að koma út úr skápnum örfáum vikum fyrir nýliðavalið?

„Ég vildi bara vera viss um að ég gæti sagt sögu mína eins og ég vil segja hana,“ sagði Sam í viðtalinu við New York Times. „Ég vildi vera trúr sjálfum mér.“

Karlmennskan er í hávegum höfð í NFL-deildinni.
Karlmennskan er í hávegum höfð í NFL-deildinni. AFP
Margir leikmenn í NFL-deildinni hafa lýst yfir stuðningi við Sam.
Margir leikmenn í NFL-deildinni hafa lýst yfir stuðningi við Sam. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert