Vel fór á með starfsbræðrunum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og François Hollande, forseta Frakklands, í Hvíta húsinu í gærkvöldi. Hrósaði Obama Hollande fyrir hugrekki við kvöldverðarborðið í gærkvöldi og tiltók þar sérstaklega hvernig hann hefur tekið á öfgamönnum í Afríku og kjarnorkudeilunni við Íran.
Bæði Hollande og Obama tiltóku langt og gott samband milli Bandaríkjanna og Frakklands undanfarin 200 ár í skálarræðum við matarborðið í gær. Frelsið væri báðum þjóðum mikilvægt og að þjóðirnar ynnu saman að því að tryggja öryggi í heiminum. „Við viljum vera saman á ný,“ segir Hollande en þetta er fyrsta opinbera heimsókn Frakklandsforseta til Bandaríkjanna í mörg herrans ár.
Afstaða Frakka til innrásarinnar í Írak árið 2003 olli titringi í samskiptum ríkjanna en Frakkar voru meðal þeirra ríkja sem neituðu að vera meðal staðfastra ríkja þegar Bandaríkjaher gerði innrás inn í Írak.
Meðal gesta í Hvíta húsinu í gærkvöldi voru leikararnir Julia Louis-Dreyfus og Bradley Cooper, en þau tala bæði lýtalausa frönsku. Eins var íþróttamaðurinn Jason Collins meðal gesta. Hollande sat á milli Obama og Michelle eiginkonu hans við háborðið en ýmsar breytingar þurfti að gera á uppstillingu við matarborðið og fleiru eftir að Hollande tilkynnti sambandsslit sín og Valérie Trierweiler.