Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir skelfilegt hvernig farið sé með börn í stríðinu í Mið-Afríkulýðveldinu. Þau hafa verið limlest og drepin, m.a. hálshöggvin.
„Land þar sem fullorðnir komast upp með að beita saklaus börn hroðalegu ofbeldi á sér enga framtíð,“ segir Manuel Fontaine, svæðisstjóri UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku.
Starfsmenn UNICEF á svæðinu segjast „skelfingu lostnir“ yfir grimmdinni og refsileysinu, þegar börn eru drepin og limlest. Þeir segja að sífellt fleiri börn séu skotmark stríðandi fylkinga vegna trúar sinnar eða uppruna.
Að minnsta kosti 133 börn hafa verið drepin og limlest, sum með hrottafengnum hætti, síðustu tvo mánuði. Starfsmenn UNICEF staðfestir að í mörgum tilfellum séu börnin hálshöggvin og limlest vísvitandi.
Fontaine segir að refsileysið megi ekki viðgangast lengur.
Mörg börn sem særst hafa í átökunum hafa oft ekki komist á sjúkrahús í tæka tíð. Sífellt meiri ringulreið ríkir í landinu en ár er frá því að forsetanum var steypt af stóli og við tók uppreisnarmaður sem hafði enga stjórn á ástandinu. Nú hefur Catherine Samba Panza tekið við forsetaembættinu tímabundið. Hún var áður borgarstjóri í höfuðborginni Bangui.
Stríðið hefur undanfarna mánuði einkennst af átökum milli kristinna og múslíma. Átök hafa geisað áratugum saman í Mið-Afríkulýðveldinu en þetta er fyrsta sinn sem trúarhópar deila af slíkri hörku.
Frakkar hafa sent fjölmennt herlið til landsins en því hefur ekki tekist að ná tökum á ástandinu enn sem komið er. Mannréttindasamtökin Amnesty International segja að þjóðernishreinsanir séu hafnar og að ástandið fari hríðversnandi.
Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna lýsir ástandinu sem hamförum sem ógerlegt sé að lýsa.