Frakkar ætla að senda 400 hermenn til viðbótar til Mið-Afríkulýðveldisins, fyrrverandi nýlendu sinnar. Þeir bætast þá í hóp 1.600 hermanna sem þegar eru komnir til landsins.
Forseti Frakklands, Francois Hollande, hvetur Evrópusambandið til að flýta för um 500 hermanna til hins stríðshrjáða lands.
Í yfirlýsingu frá forsetanum hvetur hann alþjóðasamfélagið til að beina sjónum sínum í auknum mæli að Mið-Afríkulýðveldinu.
Ár er frá því forseta landsins var steypt af stóli og harka átaka, sem geisað hafa um árabil, jókst til muna. Nú hefur stríðið breyst í trúarbragðastríð þar sem kristnir og múslímar takast á. Frakkar hafa verið gagnrýndir fyrir að taka afstöðu með kristnum í stríðinu.
„Tekið verður á öllum þeim sem spilla friði. Öllum þeim sem fremja glæpi verður refsað,“ sagði í yfirlýsingu forsetans.