Farþegi sem var um borð í flugvél Ethiopian Airlines, sem var rænt og lenti í Genf í Sviss, segir flugræningjann hafa hótað farþegum að brotlenda vélinni ef þeir létu ekki af tilraunum sínum til að komast inn í stjórnklefa flugvélarinnar.
Flugræninginn, sem í raun var aðstoðarflugstjórinn, flaug vélinni til Genfar í þeim tilgangi að sækja þar um hæli. Ræninginn segist óttast um líf sitt í heimalandi sínu, Eþíópíu.
Farþeginn, Francesco Cuomo, sagði í viðtali við ítölsku fréttaveituna ANSA að ræninginn hefði sett súrefnisgrímurnar niður til þess að undirstrika að hann myndi standa við hótunina.
Oliver Jornot, saksóknari í Genf, segir svissnesk yfirvöld vera að rannsaka málið en ræninginn á yfir höfði sér allt að 20 ára fangelsisdóm.