Gæsluvarðhald hefur verið framlengt yfir karlmanni sem er í haldi frönsku lögreglunnar, grunaður um aðild að morði á fjölskyldu í frönsku Ölpunum í september árið 2012. Fjölskyldan var bresk af írönskum uppruna. Lögreglan segir að engin augljós tengsl séu milli mannsins og morðmálsins en símagögn sanni að hann hafi verið í nágrenninu er morðin áttu sér stað. Um er að ræða fyrrverandi lögreglumann sem einnig er grunaður um vopnasmygl.
Gæsluvarðhaldið var í dag framlengt um tvo sólarhringa. Þá hefur annar maður einnig verið handtekinn í tengslum við málið.
Þetta eru fyrstu handtökurnar vegna morðsins í Frakklandi. Breska lögreglan handtók bróður mannsins sem var drepinn á sínum tíma. Honum var svo sleppt þar sem ekki voru næg sönnunargögn til að halda honum lengur.
Fjórir voru myrtir við Annecy í frönsku Ölpunum, hjón, móðir konunnar og svo hjólreiðamaður sem átti leið hjá. Tvær dætur hjónanna komust lífs af.
Franski saksóknarinn sem fer með rannsókn málsins segir „mjög ólíklegt“ að maðurinn sem nú er í haldi verði ákærður fyrir morðin. Hins vegar sé líklegt að hann verði ákærður fyrir vopnasmygl.
Vopnabúr fannst á heimili mannsins á þriðjudag og var hann í kjölfarið handtekinn.