Fyrrverandi lögreglumanni hefur verið sleppt úr haldi lögreglunnar vegna meintra tengsla sinna við morð á fjölskyldu í frönsku Ölpunum árið 2012. Hann var þó handtekinn að nýju þegar í stað, nú vegna vopnasmygls.
Maðurinn er 48 ára og var hann fyrst handtekinn á þriðjudaginn. Símagögn sýndu að hann var í nágrenni vettvangs morðanna daginn sem þau voru framin. Fjórir voru myrtir, hjón, móðir konunnar og hjólreiðamaður sem kom þar að.
Franska lögreglan sagði fljótlega eftir handtökuna á þriðjudag en tengsl hans við morðin væru óljós. Hins vegar hefði fundist vopnabúr á heimili hans.
Saksóknarinn sem fer með rannsókn málsins segir að ekki hafi verið ástæða til að halda manninum frekar vegna meintra tengsla við morðin. Lögmaður mannsins segir hann harðneita því að tengjast málinu.
Saad al-Hilli var á ferðalagi ásamt fjölskyldu sinni við Annecy-vatn í september árið 2012. Hann var skotinn til bana í bíl sínum. Eiginkona hans var einnig drepin sem og tengdamóðir hans. Tvær dætur hjónanna sluppu lifandi.
Franska og breska lögreglan fara með rannsókn málsins í sameiningu. Um tíma sat bróðir al-Hilli í gæsluvarðhaldi en honum hefur verið sleppt.