Skipstjórinn heimsækir strandstaðinn

Fyrrverandi skipstjóri skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, Francesco Schettino, heimsækir á fimmtudag strandstað skipsins við eyjuna Giglio í fyrsta sinn frá því að skipið strandaði undir hans stjórn í janúar 2012.

Fram kemur í frétt AFP að heimsóknin sé hluti af málaferlunum gegn honum en 32 létu lífið þegar Costa Concordia strandaði. Verjandi Schettinos hafi óskað eftir því að umbjóðandi sinn fengi að fara á strandstaðinn með hópi sérfræðinga sem starfa fyrir dómstólinn. Dómarinn í málinu samþykkti það í dag. Dómarinn sagði að skipstjórinn fyrrverandi fengi að vera viðstaddur en ekki skipta sér af starfi sérfræðinganna.

Schettino er sakaður um manndráp og að hafa yfirgefið skemmtiferðaskipið áður en farþegar höfðu komist frá borði. Skipherrann fyrrverandi hefur sagt að hann hafi dottið ofan í einn af björgunarbátunum og hafi síðan ákveðið að stýra flutningi farþega úr skipinu frá landi fremur en um borð í skipinu.

Francesco Schettino.
Francesco Schettino. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert