Munaðarlaus og aleinn á flótta

Ungir drengir í flóttamannabúðum í Bangui, höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins.
Ungir drengir í flóttamannabúðum í Bangui, höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins. AFP

Ibrahim Adamou varð vitni að því er foreldrar hans voru drepnir. Hann var ekki viss hvort eitthvert fimm systkina hans hefði lifað af árás hinna kristnu skæruliða. Fjölskylda hans hafði ekkert til sakar unnið. Skæruliðarnir skutu einfaldlega á hana er þeir áttu leið hjá. Börn í Mið-Afríkulýðveldinu eiga mörg hver hvergi skjól. Ofbeldið er yfirgengilegt. 

Hinn sjö ára gamli Adamou lagði á flótta. Hann gekk berfættur um 100 kílómetra leið. Hann var aleinn. Hann svaf í skjóli bananatrjánna og gekk eftir rauðgulum moldargötum á daginn. Hann vissi í raun ekkert hvert hann var að fara. Og hafði ekkert að borða.

Í fréttaskýringu Ap-fréttastofunnar, þar sem saga drengsins er rakin, kemur fram að hann hafi loks hitt friðargæsluliða sem gáfu honum kökur og bentu honum á að leita skjóls í kaþólskri kirkju þar sem um 800 múslímar halda til. 

Í kaþólsku kirkjunni eru að minnsta kosti sex önnur börn undir tíu ára aldri í nákvæmlega sömu stöðu og litli drengurinn. Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að óöldin hófst í landinu. Kristnir og múslímar berjast af hörku og mörg hundruð hafa týnt lífi. Munaðarlaus börn ráfa um landið - þau eru oft þau einu sem lifa árásirnar af.

Nú er ljóst að öryggi fólksins í kirkjunni er ógnað. Vopnaðir hópar kristinna skæruliða hafa umkringt kirkjuna og krefjast þess að múslímarnir sem þar halda til yfirgefi landið. Þá hafa þeir hótað því að kveikja í kirkjunni.

Frá flóttamannabúðum í Mið-Afríkulýðveldinu.
Frá flóttamannabúðum í Mið-Afríkulýðveldinu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert