Stjórnarandstöðuleiðtoginn og hnefaleikakappinn Vitali Klitschko vill að úkraínska þingið kalli út herinn hið fyrsta eftir að Vladímír Pútin, forseti Rússlands, fékk heimild frá rússneska þinginu til að senda vopnaðar hersveitir til landsins.
Þá óskaði hann jafnframt eftir því að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kæmi saman á morgun, sunnudag, til að ræða næstu skref. Grípa yrði til aðgerða sem fyrst.
Utanríkisráðherrar nokkurra Evrópuríkja hafa boðað til neyðarfundar í Brussel, höfuðborg Belgíu, á mánudaginn. Heimildir AFP herma að þar verði ræddar leiðir til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er komin upp í Úkraínu.