Réðust á meðlimi Pussy Riot

Ráðist var á tvo meðlimi pönkbandsins Pussy Riot á veitingastað McDonalds í Rússlandi í dag, en hópur ungra manna réðst á þær Nadesjdu Tolokonnikovau og Mariu Alyokhinu. Konurnar eru með höfuðáverka og brunasár eftir árásina. Mennirnir voru vopnaðir grænum sótthreinsivökva, piparspreyi og vopnum.

Þetta segir Pyotr Verzilov, eiginmaður Tolokonnikovau, í samtali við AFP-fréttastofuna en hljómsveitin sendi einnig frá sér myndskeið eftir árásina. Þar má sjá mennina trufla konurnar þar sem þær sátu á veitingastaðnum og í lokin konurnar tvær, grænar í framan eftir vökvann sem mennirnir skvettu á þær.

Einn mannanna hélt á spjaldi með skilaboðunum: „Skítugu hórur, farið úr borginni,“. Lögfræðingur hljómsveitarinnar, Yevgeny Gubin, sagði að árásarmennirnir hefðu einnig hent hlutum úr málmi í konurnar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðist hefur verið á konurnar tvær eftir að þeim var sleppt úr fangelsi í desember. Þær sátu báðar í rússneskum fangabúðum í tæp tvö ár að hafa flutt pönkmessu í kirkju í Moskvu þar sem þær ákölluðu Maríu guðsmóður og báðu hana um að losa Rússland við Vladimir Pútín forseta. Þær voru látnar lausar í desember, þremur mánuðum áður en afplánun þeirra átti að ljúka.

Tolokonnikova deildi læknisvottorði á Twitter þar sem kom fram að hún væri brunnin á augum, andliti og höndum eftir árásina í dag. Sauma þurfti enni Alyokhinu og fékk hún einnig heilahristing. 

Nadesjda Tolokonnikova og Maria Alyokhina, meðlimir rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot
Nadesjda Tolokonnikova og Maria Alyokhina, meðlimir rússnesku pönksveitarinnar Pussy Riot EPA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert