Segir son sinn djöful í mannsmynd

Adam Lanza framdi fjöldamorð og svipti sig lífi tvítugur að …
Adam Lanza framdi fjöldamorð og svipti sig lífi tvítugur að aldri.

Sonur minn var djöfull í mannsmynd, segir Peter Lanza en sonur hans Adam Lanza myrti tuttugu börn og sex starfsmenn  Sandy Hook-grunnskólans í Connecticut í desember 2012. Meðal fórnarlambanna var móðir hans.

Peter Lanza hefur hingað til ekki viljað tjá sig um son sinn en The New Yorker birtir nú viðtal við hann. Að sögn blaðamannsins sem tók viðtalið,  Andrew Solomon, taldi Lanza sér bera siðferðislega skyldu til þess að segja söguna.

Peter Lanza segir í viðtalinu að hann vildi óska þess að sonur hans hefði aldrei fæðst. Hann segist ekki efast um að Adam hefði skotið hann til bana líkt og móður sína hefði hann haft tækifæri til þess.

Að sögn Lanza, sem er aðstoðarforstjóri GE Energy Financial Services, hafði hann ekki hitt son sinn í tvö ár þegar hann framdi fjöldamorðin. Peter og móðir Adams, Nancy skildu árið 2001.

Hann segir að það sé engin tilviljun að Adam skaut móður sína fjórum sinnum, eitt skot hafi verið fyrir hvert þeirra, „eitt fyrir Nancy, eitt fyrir hann, eitt fyrir [bróður hans] Ryan og eitt fyrir mig,“ segir Peter Lanza í viðtalinu.

Peter Lanza segir að Adam hafi átt erfitt með að fóta sig félagslega og hafi verið greindur með Asperger en hann hafi í raun verið með geðklofa án þess að vera nokkurn tíma greindur. Asperger geri fólk kannski frábrugðið að einhverju leyti en ekki að því sem sonur hans var, segir Lanza.  Hann segist telja að Nancy, móðir Adams, hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu hættulegur sonur þeirra var orðinn.

The New Yorker

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka