„Allt í lagi, góða nótt“

AFP

Það síðasta sem barst í gegnum fjarskipti frá flugstjórnarklefa flugs Malaysia Airlines 370 var: „Allt í lagi, góða nótt“, sagði sendiherra Malasíu í Peking á fundi með aðstandendum Kínverja sem voru um borð í flugvélinni sem hvarf aðfaranótt laugardags.

Sendiherrann, Iskandar Sarudin, ræddi við ættingja og vini þeirra 153 Kínverja sem voru um borð. Alls voru 239 um borð í Boeing 777-þotunni er hún hvarf.

Ummælin, allt í lagi, góða nótt, lét einn flugmannanna falla þegar flugvélin fór úr malasískri lofthelgi yfir í víetnamska, að sögn sendiherrans.

Á sama tíma og ruglingur með leitarsvæðið eykst og hvort herinn í Malasíu hafi numið flugvélina á mælum sínum segir sendiherrann að ekki sé rétti tíminn til þess að fara yfir þau ummæli sem hafa komið frá yfirmönnum hersins í samtölum við almenning.

Gömul brot í starfi rifjuð upp Eitt af því sem var rætt á fundinum með sendiherranum voru fréttir af því að einn af aðstoðarflugmönnunum, Fariq Abdul Hamid, 27 ára, hefði brotið reglur flugfélagsins árið 2011 með því að bjóða tveimur ungum konum frá Suður-Afríku inn í flugstjórnarklefann í flugi.

Aðstendur farþeganna eru ósáttir við þau svör sem þeir hafa fengið, ekki bara frá Malasíu heldur einnig kínverskum yfirvöldum sem þeir telja að geri ekki nóg við að aðstoða við leitina. 

Sjö kínversk skip taka þátt í leitinni og það áttunda bætist við í dag, segir í frétt Xinhua-ríkisfréttastofunnar. En netnotendur hafa gagnrýnt mynd sem fréttastofan birtir með fréttinni af yfirmanni leitarinnar af hálfu Kínverja þar sem hann situr við skrifborð og talar í símann. „Á hvaða áratug er þetta, að þeir skuli enn taka myndir af þessu tagi? Er það gert til þess að sýna að leiðtogarnir eru í önnum?“ er spurt á vefnum.

Einn ritar að þrátt fyrir að 96 klukkustundir séu liðnar síðan síðast heyrðist í flugi MH370 og að tíu þjóðir taki þátt í leitinni hafi hvorki fundist tangur né tetur af vélinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert