Fylgdarkona Berlusconis smyglaði kókaíni

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu.
Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Saksóknari á Ítalíu rannsakar nú mál konu nokkurrar sem ferðaðist nokkrum sinnum með Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu er hann var í opinberum erindagjörðum í valdatíð sinni. Hún var handtekin í gær eftir að 24 kíló fundust í ferðatösku hennar við komu hennar frá Venesúela.

Hún heitir Federica Gagliardi og var kölluð „Hvíta frúin“ í ítölskum fjölmiðlum eftir að hún sást nokkrum sinnum í föruneyti Berlusconis.

Ekki liggur fyrir hvort hún starfaði fyrir hann eða hvers vegna hún ferðaðist með honum.

Rannsóknin beinist nú meðal annars að því hversu lengi hún hafi smyglað fíkniefnum og hvort hún hefði ferðast til Suður-Ameríkulanda í opinberum ferðum Berlusconis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert