Þeir sem rannsaka hvarf farþegaflugvélar Malaysia Airlines hafa lagt hald á flughermi sem var á heimili flugstjóra vélarinnar, Zaharie Ahmad Shah.
Lögregla í Malasíu hefur lagt áherslu á að afla sem mestra upplýsinga um áhöfn vélarinnar og þá ekki síst flugmanna hennar. Engar nýjar upplýsingar hafa verið gefnar um hvort rannsókn á flugmönnunum hafi varpað nýju ljósi á örlög flugvélarinnar.
Lögreglan er m.a. að afla upplýsinga um stjórnmála- og trúarskoðanir flugmannanna. Rætt er við vini þeirra og samstarfsmenn. Stjórnvöld í Malasíu leggja áherslu á að um venjubundna rannsókn á áhöfninni sé að ræða.
Sky-fréttastofnan sagði frá því í morgun að á fésbókarsíðu Zaharie kæmi fram að hann hefði verið andsnúinn ríkisstjórn landsins, en stjórnarflokkarnir í Malasíu hafa stjórnað landinu samfellt í 57 ár.
Nokkrum klukkutímum áður en flugvélin tók á loft var Anwar Ibrahim, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir samkynhneigð. Stuðningsmenn hans og mannréttindasamtök segja að um pólitísk réttarhöld hafi verið að ræða.
AP-fréttastofan segir að árið 2011 hafi Fariq Abdul Hamid aðstoðarflugmaður og annar flugmaður fengið áminningu fyrir að bjóða tveimur konum, sem voru farþegar um borð, inn í flugstjórnarklefann, en það sé skýrt brot á reglum.
Hamid, sem var 27 ára gamall, áformaði að gifta sig á þessu ári.
Um 25 þjóðir taka þátt í leit að flugvélinni, en nú er talið sennilegast að henni hafi annaðhvort verið flogið í norðvestur í átt að Kasakstan eða í suðvestur í átt að Suðurskautslandinu. Indversk stjórnvöld telja útilokað að óþekkt flugvél hafi komið inn í þeirra lofthelgi án þess að hennar yrði vart. Leit á Indlandshafi hefur verið hætt. Indversk flugmálayfirvöld segja að leit hefjist ekki að nýju nema nýjar vísbendingar berist. Flugvélar frá Ástralíu hafa hins vegar tekið þátt í leit að vélinni á stóru hafsvæði vestur af Ástralíu.
239 voru um borð í flugvélinni, þar af 153 Kínverjar. Kínversk stjórnvöld hafa lýst yfir óánægju með að það hafi tekið stjórnvöld í Malasíu heila viku að uppgötva að slökkt hafi verið á fjarskiptabúnaði flugvélarinnar og henni viljandi snúið af áætlaðri flugleið.