„Elskar lífið og elskar að fljúga“

Flugstjórinn Zaharie Ahmad Shah (t.v.) og flugmaðurinn Fariq Abdul Hamid.
Flugstjórinn Zaharie Ahmad Shah (t.v.) og flugmaðurinn Fariq Abdul Hamid.

Fjölskylda flugstjórans sem flaug malasísku farþegaflugvélinni biður hann að koma heim. Þetta gera þau í myndskeiði sem birt er á YouTube.

Í myndskeiðinu má sjá myndir af flugstjóranum Zaharie Ahmad Shah sem fjölskyldan kallar Ari.

„Gerðu það, komdu heim heim, við söknum þín,“ segir m.a. í myndbandinu.

Flugstjórinn er 53 ára og var við stjórnvölinn á vélinni sem ekkert hefur spurst til í tíu daga. Fjölskyldan lýsir honum sem „elskulegum, örlátum, svölum og greindum“ en telja einnig upp mörg önnur lýsingarorð sem þau segja eiga við um hann.

Zaharie og flugmaðurinn Fariq Abdul Hamid eru nú sérstaklega til rannsóknar vegna hvarfs vélarinnar. Búið er að leita á heimilum þeirra. Ljóst er að einhver um borð slökkti á mikilvægum fjarskiptabúnaði vélarinnar skömmu áður en henni var flogið inn í lofthelgi Víetnam. Vélin var á leið frá Kuala Lumpur til Peking.

Peter Chong, vinur Zaharies, segir í samtali við Sky-fréttastofuna að hann trúi því alls ekki að vinur hans hafi haft nokkuð með hvarf vélarinnar að gera.

„Hann er mjög umhyggjusamur maður sem elskar lífið og elskar fljúga. Hann er mjög faglegur flugstjóri.“

Fjölmiðlar hafa síðustu klukkustundir m.a. beint sjónum að tengslum Zaharies við malasískan stjórnarandstöðuflokk. Formaður hans var dæmdur fyrir kynferðisbrot aðeins nokkrum klukkustundum áður en malasíska vélin fór í loftið.

Hér má sjá myndskeiðið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert