Engin sjálfsvígsbréf fundust

Búið er að gera húsleit á heimilum flugstjórans og flugmannsins sem flugu vél Malaysia Airlines. Lögreglan segir að engin sjálfsvígsbréf hafi fundist á heimilum mannanna.

Ljóst er að það var flugmaðurinn, ekki flugstjórinn, sem var síðast í sambandi við flugumferðarstjórn eftir að vélin fór í loftið þann 8. mars. Lokaorðin voru: „Allt í lagi, góða nótt“ en í frétt Sky segir að tveimur mínútum síðar hafi verið slökkt á mikilvægum fjarskiptabúnaði um borð í vélinni. Aðrar fréttir herma að þegar hafi verið búið að slökkva á búnaðinum er hann ræddi við flugumferðarstjórann. Forstjóri Malaysian Airlines sagði á blaðamannafundi í morgun að ekki væri enn á hreinu hvenær nákvæmlega var slökkt á búnaðinum. Eitt er þó vitað, það gerðist rétt áður en flugvélinni var flogið inn í lofthelgi Víetnam. 

Flugstjórinn heitir Zaharie Ahmad Shah og flugmaðurinn Fariq Abdul Hamid. Rannsóknin hefur í auknum mæli beinst að þeim undanfarna daga. Tíu dagar eru frá því að vélin hvarf og mjög fáar vísbendingar hafa komið fram.

Í dag hefur verið leitað ítarlega á heimilum flugmannsins og flugstjórans. Flughermir, sem flugstjórinn smíðaði og hafði á heimili sínu, er nú í rannsókn hjá lögreglu.

Einnig er verið að rannsaka bakgrunn allra farþega vélarinnar sem og annarra úr áhöfninni. Þá er einnig verið að rannsaka þá sem komu að vélinni á jörðu niðri fyrir brottfor frá Kuala Lumpur.

Leitarsvæðið er nú orðið gríðarlega stórt. Leitað er allt frá Kaspíahafi í norðri og suður um allt Indlandshaf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert