Talið er að flugmaðurinn hafi mælt síðustu orðin sem flugumferðarstjórn heyrði úr flugstjórnarklefa malasísku farþegavélarinnar. Þau voru: „Allt í lagi, góða nótt.“ Tíu dagar eru frá því að vélin hvarf og nær engar vísbendingar hafa enn fundist um afdrif hennar.
Yfirmaður hjá Malaysian Airlines segir að nú sé talið að flugmaðurinn, ekki flugstjórinn, hafi sagt lokaorðin við flugumferðarstjórn.
„Fyrstu niðurstöður rannsóknar gefa til kynna að það hafi verið flugmaðurinn sem talaði,“ segir Ahmad Jauhari Yahya, forstjóri Malaysian Airlines, en hann hélt blaðamannafund í morgun.
Lokaorðin frægu voru sögð eftir að búið var að slökkva handvirkt á mikilvægum fjarskiptatækjum um borð í vélinni.
Flugstjóri og flugmaður vélarinnar hafa verið sérstaklega til rannsóknar í málinu undanfarna daga.
Flugstjóri vélarinnar heitir Zaharie Ahmad Shah og er 53 ára. Flugmaðurinn heitir Fariq Abdul Hamid og er 27 ára.
Þegar hefur verið leitað á heimilum þeirra.