„Mér líður betur núna“

Jose Salvador Alvarenga og Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova, er …
Jose Salvador Alvarenga og Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova, er þau hittust um helgina. AFP

Skipbrotsmaðurinn sem var á reki um Kyrrahafið í um 13 mánuði, hitti um helgina móður félaga síns sem var með honum um borð er bát þeirra tók að reka í vonskuveðri. Fundur þeirra var hjartnæmur en hinn ungi félagi lést á ferðalaginu.

Jose Salvador Alvarenga fór frá heimalandinu El Salvador og til Mexíkó til að hitta foreldra félaga síns, Ezequiel Cordova. Sá var 24 ára gamall. 

Fjölskylda unga mannsins tók Alvarenga opnum örmum og ræddu þau saman í yfir þrjá klukkutíma. 

„Þetta færði mér smá frið, því í draumum mínum þá hefur hann beðið mig að ræða við móður sína,“ sagði Alvarenga við blaðamenn og gat ekki haldið aftur af tárunum.

Alvarenga segist hafa ráðið Cordova sem aðstoð um borð í rækjuveiðibát sínum. Hann hafi látist er þeir voru búnir að vera á reki í um fjóra mánuði. Hann segir unga manninn hafa átt erfitt með að drekka skjaldbökublóð og þvag og borða hráan fisk. Magi hans hafi ekki þolað það.

Alvarenga skolaði að landi á Marshall-eyjum 30. janúar. Þá hafði hann verið á reki í um 13 mánuði og farið um 12.500 kílómetra á sjó á pínulitlum báti.

„Hann styrkti mig,“ segir Alvarenga um bátsfélaga sinn. Hann segir þá hafa gert samkomulag um að ef aðeins annar þeirra myndi lifa af myndi sá heimsækja fjölskyldu þess sem hefði látist. Á þeim fundi ætti að segja alla söguna.

„Mér líður betur núna. Ég er rólegri því nú veit ég hvað gerðist,“ segir Roselia Ríos Cueto, móðir Cordova. „Nú veit ég hver hinstu orð sonar míns voru. Það færir mér frið.“

Fjölskylda Cordova segist ekki kenna Alvarenga um hvernig fór. Hún hafi aðeins viljað vita hvað gerðist.

Lögmaður Alvarenga, Benedicto Pereira, segir að skjólstæðingur sinn segi að hann hafi beðið með að setja lík Cordova útbyrðis í þrjá daga. Hann hafi vonað að hann væri ekki dáinn.

Eftir að hafa hitt fjölskylduna fór Alvarenga til Chiapas-ríkis í Mexíkó, þar sem hann bjó í nokkur ár og á marga vini. Hann vill gjarnan ræða við þá um reynslu sína.

Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova, með mynd af syni sínum.
Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova, með mynd af syni sínum. AFP
Jose Salvador Alvarenga og Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova.
Jose Salvador Alvarenga og Roselia Diaz, móðir Ezequiel Cordova. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert