Hæstiréttur staðfestir dóm yfir Berlusconi

Silvio Berlusconi.
Silvio Berlusconi. AFP

Hæstiréttur Ítalíu staðfesti í kvöld tveggja ára bann við því að Silvio Berlusconi gegni opinberu embætti.

Berlusconi var dæmdur til bannsins eftir að hafa verið fundinn sekur um skattsvik á síðasta ári. Hann var einnig dæmdur til fjögurra ára fangelsisvistar, en sökum hás aldurs er búist við að hann taki út dóminn með samfélagsþjónustu. Berlusconi er 77 ára.

Í öðru aðskildu máli í fyrra var Berlusconi dæmdur til banns frá opinberum embættum fyrir lífstíð auk sjö ára fangelsisvistar, eftir að hafa verið fundinn sekur um að greiða fyrir kynmök með stúlku undir lögaldri og misbeita valdi sínu sem forsætisráðherra til að hylma yfir málið.

Berlusconi hefur látið fara lítið fyrir sér síðustu mánuði eftir að dómarnir féllu. Fleiri málsóknir hafa verið höfðaðar gegn honum sem enn bíða niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert