Stóð upp úr fjöldanum

L'Wren Scott,
L'Wren Scott, AFP

Andlát tískuhönnuðarins og fyrrverandi fyrirsætunnar L'Wren Scott er rannsakað sem sjálfsvíg, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í New York. Mikið er fjallað um andlát hennar í fjölmiðlum enda einn helsti hönnuður New York borgar og afar vinsæl meðal fræga fólksins. Ekki spillir áhuganum að hún var unnusta eins helsta rokkara samtímans, söngvara Rolling Stones, Micks Jaggers. 

Í frétt Reuters kemur fram að hún hafi hengt sig í trefli í íbúð sinni í Chelsea-hverfinu í New York. 

Scott, sem hét réttu nafni Luann Bambrough, var 49 ára er hún lést en hún hefði orðið fimmtug hinn 28. apríl nk. Hún var ættleidd og alin upp af strangtrúuðum mormónum í borginni Roy í Utah. Hún lauk menntaskólanámi þar árið 1985. Hún var ung að árum þegar hún lærði að sauma föt og sagði einhvern tíma að foreldrar hennar hefðu alið hana upp við að meta sparsemi sem dyggð og það hefði haft áhrif á allt hennar lífsstarf.

Rúmlega 190 cm á hæð

Scott, sem var mjög hávaxin eða um 190 cm að hæð, var uppgötvuð af ljósmyndaranum Bruce Weber þegar hún var sautján ára gömul. Hann fékk hana til að sitja fyrir í auglýsingu fyrir Calvin Klein og ráðlagði henni að flytja til Parísar og fá vinnu sem fyrirsæta.

Hún tók hann á orðinu og nurlaði saman nægu fé fyrir flugmiða aðra leiðina með því að taka að sér barnagæslu. Við komuna til Parísar tók hún upp nýtt nafn og hóf störf sem fyrirsæta hjá Chanel-tískuhúsinu. 

Árið 1994 var hún búin að fá sig fullsadda á fyrirsætustörfum auk þess sem hún þótti of hávaxin fyrir sýningarpallana. Hún flutti því til heimalandsins á ný og nú til Kaliforníu þar sem hún starfaði sem stílisti hjá hinum þekkta ljósmyndara Herb Ritts fyrir tímarit eins og Vanity Fair. Það var einmitt við tökur með Ritts sem hún hitti Jagger fyrst.

Scott hannaði einnig búninga fyrir kvikmynd Stanleys Kubricks Eyes Wide Shut árið 1999, Ocean's Thirteen árið 2007 og heimildarmynd Scorseses um Rolling Stones árið 2008, Shine A Light.

Enn á kærustuparsstigi eftir 13 ára samband

Orðrómi um að þau Jagger væru á leið í hjónaband, en þau bjuggu saman bæði í London og Frakklandi, hefur skotið upp af og til en samband þeirra hófst árið 2001. Þrátt fyrir það lýsti Jagger henni árið 2010, níu árum eftir að sambandið hófst, sem konu sem hann væri að hitta (kind of dating). 

Fyrsta tískulína Scott kom á markað árið 2006 og allt frá þeim tíma hafa þekktar konur gengið í fatnaði frá henni. Má þar nefna forsetafrú Bandaríkjanna, Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Frakklands, Cörlu Bruni-Sarkozy, þáttastjórnandann Oprah Winfrey og leikkonurnar Angelinu Jolie, Nicole Kidman, Amy Adams, Söru Jessicu Parker og Penelope Cruz, en þær hafa allar mætt á rauða dregilinn í fatnaði hönnuðum af Scott.

Skólastýrukjóllinn hennar Madonnu

Sá kjóll hennar sem hefur vakið mesta athygli er kjóll sem Madonna hefur klæðst oftar en einu sinni, svokallaður „headmistress“- eða skólastýrukjóll úr línu sem nefnist litli svarti kjóllinn, samkvæmt umfjöllun Guardian um ævi Scott.

Í Washington Post er fjallað um hvernig fjölmiðlar völdu að greina frá andláti hennar. Flestir settu sem fyrirsögn „Kærasta Micks Jaggers látin“ miklu frekar en að tískuhönnuðurinn L'Wren Scott væri látin. Samt sem áður er hún með þekktari fatahönnuðum Bandaríkjamanna í dag. Greinarhöfundur WP veltir því fyrir sér hvað valdi en við því fást væntanlega engin svör. 

Ekki að hanna á börn heldur konur

En Scott er ekki bara frægur fatahönnuður heldur er hún þekkt fyrir fatnað sem hentar konum af öllum stærðum og gerðum og er umfram allt þægilegur.

Í viðtali við Guardian árið 2011 sagðist hún hanna fatnað á konur, ekki tólf ára gömul börn. „Þú verður að hugsa um viðskiptavini þína - þeir eru konur af öllum stærðum og gerðum út um allan heim, konur með ólíkar þarfir,“ sagði Scott í viðtalinu. En samkvæmt Guardian sagðist hún í viðtali árið 2006 engan áhuga hafa á að hanna fatnað á tólf ára og bætti við „þetta er fyrir konur“.

Samkvæmt Vogue tók Scott mið af hávöxnum konum við hönnun sína enda vön því að standa upp úr fjöldanum alla tíð. 

Andlátið kom á óvart

Dauði Scott virðist hafa komið öllum á óvart, bæði vinum og ættingjum, og fjölmiðlafulltrúi Jaggers segir nákvæmlega ekkert hæft í frétt New York Post um að þau Scott hafi verið hætt saman. Eins sé ekkert sem bendi til þess að hún hafi glímt við þunglyndi líkt og slúðrað hefur verið um frá andláti hennar.

Mirror greinir frá því að tískuhús Scott hafi verið afar skuldugt og námu skuldir hennar við lánardrottna 4,5 milljónum punda, 845 milljónum króna. Það var aðstoðarkona hennar sem kom að henni en Scott hafði sent henni sms og beðið hana að koma við. 

Líkt og kom fram á mbl.is í morgun hefur Rolling Stones aflýst fyrirhuguðum tónleikum í Perth sem halda átti á morgun og ekki er vitað hvert framhaldið verður en hljómsveitin hafði skipulagt fjórtán tónleika á næstu vikum í Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Hljómsveitin var nýlent í Perth í gær þegar Jagger var tilkynnt andlát unnustu sinnar. Hann er að sögn umboðsmanns hans gjörsamlega niðurbrotinn líkt og margir vina þeirra.

„Niðurbrotinn eftir að hafa misst vin minn,“ tísti tónlistarmaðurinn Bryan Adams sem bætti við að hann myndi sakna hennar. Fyrrverandi eiginkona Jaggers, Bianca, skrifar að hún sé niðurbrotin eftir að hafa frétt af andláti hinnar hæfileikaríku og yndislegu L'Wren Scott. 

Marc Jacobs skrifar að hennar verði ávallt saknað og Nicole Kidman, sem hafði verið vinkona hennar í aldarfjórðung, var algjörlega niðurbrotin og ófær um að tjá sig við fjölmiðla að sögn talskonu leikkonunnar.

Anna Wintour, ritstjóri Vogue, skrifar um Scott á vef Vogue og lýsir hönnun hennar og einkennum hönnuðarins þar sem saman fari sjálfsöryggi og kraftmikil hönnun.

Tískuhús L'Wren Scott þar sem hægt er að skoða hönnun hennar 

Mick Jagger og L'Wren Scott
Mick Jagger og L'Wren Scott AFP
Mick Jagger og L'Wren Scott
Mick Jagger og L'Wren Scott AFP
L'Wren Scott og Mick Jagger
L'Wren Scott og Mick Jagger AFP
Við húsið sem hún bjó í við 11. Avenue í …
Við húsið sem hún bjó í við 11. Avenue í Chelsea hverfinu. AFP
Blóm við íbúð L'Wren Scott,
Blóm við íbúð L'Wren Scott, AFP
Húsið þar sem hún fannst látin
Húsið þar sem hún fannst látin AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert