Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna lýsti í dag hryllingi sínum vegna hömlulauss ofbeldis í Mið-Afríkulýðveldinu. Sagði hún að þar færi fram mannát, aftökur á götum úti án dóms og laga og þess væru dæmi að börn séu afhöfðuð.
Navi Pillay varaði við því að viðbrögð umheimsins væru allt of svifasein og kallaði af miklum þunga eftir aðgerðum.
„Hatrið milli samfélagshópa hefur náð skelfilegum hæðum,“ sagði Pillay á blaðamannafundi í höfuðborg Mið-Afríkulýðveldisins, Bangui í dag.
„Þetta er nú orðið land þar sem fólk er ekki aðeins drepið, það er pyntað, brennt, aflimað og því misþyrmt. Börn hafa verið afhöfðuð og við þekkjum minnst fjögur dæmi þess að morðingjar hafi lagt sér til munns hold fórnarlamba sinna.“
Algjör glundroði hefur verið í Mið-Afríkulýðveldinu undanfarið ár, síðan uppreisnarmenn boluðu forsetanum Francois Bozize frá völdum. Landið er nú meira og minna stjórnlaust og hafa uppreisnarmenn gengið um drepandi, nauðgandi og rænandi.
Um 2.000 franskir hermenn eru í landinu til að reyna að koma á friði ásamt þrefalt fleiri hermönnum frá Afríkusambandið, en þeir hafa átt í miklum erfiðleikum með að koma í veg fyrir það sem Sameinuðu þjóðirnar kalla þjóðernishreinsanir á múslímum sem eru í minnihluta í landinu.
Pillay sagði í dag að viðvera hersins hafi komið í veg fyrir að fjöldamorðin sem framin voru í desember og janúar endurtækju sig. Meira þurfi þó til ef koma eigi á friði.
„Það er enn verið að drepa fólk hvern einasta dag [...] Ég hef miklar áhyggjur af því hversu hægt umheimurinn bregst við. Lífsnauðsynleg neyðarhjálp fæst ekki fjármögnuð, innan við 20% af því sem við þurfum hefur fengist,“ sagði Pillay.
„Alþjóðasamfélagið virðist hafa gleymt því sem við lærðum í Bosníu og Hersegóvínu, Rúanda, Kósóvó og Austur-Tímor - svo ég nefni nokkur dæmi. Ég kemst ekki hjá því að hugsa að ef Mið-Afríkulýðveldið væri ekki fátækt land, falið í miðju hjarta Afríku, þá myndu þessir hræðilegu atburðir sem þar hafa gerst og halda áfram að gerast hafa kallað fram mun sterkari og öflugri viðbrögð frá umheiminum.“