Francois Hollande, forseti Frakklands hefur í frönskum fjölmiðlum lengi verið kallaður Monsieur Normale (ísl. Herra eðlilegur). Traust Frakka í garð forsetans hefur hins vegar hríðfallið á undanförnum misserum og nú hefur hann gripið til sérstaks ráðs til þess að auka vinsældir sínar. Nýlega réð hann til sín ræðuskrifara, sem áður starfaði sem hip-hop tónlistargagnrýnandi.
Pierre-Yves Bocquet, betur þekktur undir dulnefninu Pierre Evil hefur lengi verið þekktur fyrir skrif sín um frönsku hip-hop senuna. Árið 2005 ritaði hann bókina Gangsta-rap undir dulnefninu.
Bocquet er hins vegar ekki aðeins virtur tónlistargagnrýnandi heldur er hann hámenntaður og á sér fortíð sem ráðuneytisstarfsmaður. Bindur Hollande vonir við að honum takist að krydda upp á ræður sínar, sem oft þykja heldur þurrar og jafnvel svæfandi.
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Hollande notfærir sér tónlistarheiminn til þess að auka vinsældir sínar. Í kosningunum árið 2012 gerði hann lagið Niggas in Paris með rapparanum Jay-Z að aðallaginu í kosningabaráttu sinni. Birtist myndband af honum á ferð og flugi um París með rapplag Jay-Z undir. Ætlaði hann sér þannig að ná betur til fjölmenningarsamfélagsins í París. Tókst honum að vekja mikla athygli með uppátækinu þótt upp hafi sprottið miklar deilur um skilaboð textans.