Kókaínið eða naflastrengurinn

Fóstur
Fóstur Wikipedia

Rennie Gibbs var sex­tán ára göm­ul þegar hún fæddi and­vana barn í Mississippi. Hún á yfir höfði sér lífstíðarfang­elsi fyr­ir að hafa neytt kókaíns á meðgöng­unni.

Frétta­vef­ur­inn Pro Pu­blica fjall­ar í vik­unni um mál­efni kvenna sem í aukn­um mæli eru sak­sótt­ar fyr­ir að stofna lífi ófæddra barna sinna í hættu. 

Dótt­ir Rennie Gibbs, Samiya, fædd­ist mánuði fyr­ir tím­ann. Hún kom í heim­inn á sömu stundu og hún yf­ir­gaf hann án þess að draga nokk­urn tíma and­ann. Sér­fræðing­ar sem síðar skoðuðu lækna­skýrsl­ur frá fæðingu henn­ar segja að helsta skýr­ing­in á að hún lést í móðurkviði sé sú að nafla­streng­ur­inn var vaf­inn um háls henn­ar.

En það var ekki tal­in lík­leg­asta skýr­ing­in í nóv­em­ber 2006 þegar Samiya kom í heim­inn. Rétt­ar­meina­fræðing­ur­inn, Steven Hayne, lýsti því yfir að um mann­dráp hefði verið að ræða þar sem leif­ar af krakkkókaíni hefðu fund­ist í lík­ama barns­ins. Bana­mein henn­ar hefði því verið kókaín­eitrun.

Ákærð fyr­ir morð 

Í byrj­un árs 2007 var Gibbs, sem þá var sex­tán ára göm­ul, ákærð fyr­ir að eiga sök á dauða barns­ins með því að hafa reykt krakk á meðgöng­unni. Hún hefði því borið ábyrgð á dauða dótt­ur sinn­ar. Há­marks­refs­ing fyr­ir slík­an glæp í Mississippi er lífstíðarfang­elsi.

Nú sjö árum síðar og eft­ir marga rang­hala í dóms­kerf­inu bend­ir allt til þess að mál Gibbs verði tekið fyr­ir í rétt­ar­sal. Er málið eitt margra sem hafa komið upp á und­an­förn­um árum í Banda­ríkj­un­um varðandi rétt ófæddra barna og rétt mæðra. Er hægt að sak­fella mæður fyr­ir mann­dráp ef barn deyr í móðurkviði. 

Á næstu dög­um mun dóm­ari ákveða hvort mál­inu verði vísað frá eða tekið fyr­ir dómi. Ef mál­inu verður fram­haldið í dóms­kerf­inu á Gibbs á hættu að verða fyrst kvenna í Mississippi sem er dæmd fyr­ir að fæða and­vana barn.

Ef ákveðið verður að dóm­taka málið verður vænt­an­lega gerð grein fyr­ir því að það sé vís­inda­lega sannað að kókaínn­eysla á meðgöngu geti bundið enda á líf fóst­urs eða að niðurstaða Haynes og sak­sókn­ara bygg­ist á röng­um álykt­un­um og lé­leg­um vís­ind­um.

Tek­ur á mörg­um spurn­ing­um

Mál Gibbs tek­ur á mörg­um spurn­ing­um og um leið hvernig tekið er á mál­um fá­tæks blökku­fólks í saka­mál­um í Banda­ríkj­un­um, einkum þegar eit­ur­lyf koma við sögu. Eins það sjón­ar­mið að fóst­ur sé per­sóna og rétt­ur til fóst­ur­eyðinga.

Fóst­ur­eyðing­ar hafa verið lög­leg­ar í rúm­lega 40 ár í Banda­ríkj­un­um eða allt frá því hæstirétt­ur dæmdi í máli Roe gegn Wade 1973. Þrátt fyr­ir að þær séu lög­leg­ar er stór og áhrifa­mik­ill hóp­ur and­snú­inn fóst­ur­eyðing­um og hafa ríki frek­ar farið í þá átt að þrengja túlk­un sína á heim­ild­um til fóst­ur­eyðinga að und­an­förnu en að víkka út skiln­ing sinn á lag­aramm­an­um.

Sak­sókn­ar­ar benda á að ríkið beri ábyrgð á að vernda börn fyr­ir hættu­legri hegðun for­eldra. Bend­ir rík­is­sak­sókn­ari í Mississippi á að ef ekki verði réttað yfir Gibbs þýði að „hver eit­ur­lyfjafík­ill sem ræn­ir eða stel­ur til þess að út­vega pen­ing fyr­ir dópi eigi ekki að bera ábyrgð á gjörðum sín­um vegna fíkn­ar sinn­ar“. 

Sjá nán­ar hér

Á sama tíma ótt­ast ýms­ir þeirra sem berj­ast fyr­ir rétt­ind­um kvenna og jafn­rétti að ef Gibbs verður sak­felld þýði það að auk­inn kraft­ur verði sett­ur í sak­sókn gegn kon­um eða stúlk­um sem missa börn á meðgöngu eða fara í fóst­ur­eyðingu. Þetta myndi snerta blökku­kon­ur mest en það er tvö­falt al­geng­ara að þær fæði and­vana börn en hvít­ar kon­ur.

Sam­kvæmt grein Pro Pu­blica eru fá ríki með jafnslæmt orðspor og Mississippi þegar kem­ur að heilsu­fari barna. Eins er mjög al­gengt að ung­ar stúlk­ur verði þungaðar þar og kyn­sjúk­dóm­ar eru mjög al­geng­ir. Harðar regl­ur gilda í rík­inu varðandi rétt á fóst­ur­eyðing­um. Meðal atriða sem nefnd eru sem or­sak­ir þess að fyr­ir­burafæðing­ar eru al­geng­ar í Mississippi og hærri dán­artíðni meðal ungra barna eru fá­tækt, skort­ur á nær­ing­ar­rík­um mat, erfitt aðgengi að heilsu­gæslu, meng­un, reyk­ing­ar og streita.

En mál Gibbs er ekk­ert eins­dæmi því fjöl­mörg mál hafa komið upp í Banda­ríkj­un­um á und­an­förn­um árum þar sem kon­ur hafa verið hand­tekn­ar og stund­um dæmd­ar fyr­ir morð vegna ein­hvers sem er álitið hættu­legt fram­ferði á meðgöngu.

Át rottu­eit­ur og lifði af sjálf en missti barnið

Bei Bei Shuai sat í gæslu­v­arðhaldi í Indi­ana í rúmt ár en hún var ákærð fyr­ir til­raun til fóst­ur­eyðing­ar og morðs. Shuai gerði til­raun til sjálfs­vígs þegar hún var kom­in tæpa átta mánuði á leið. Í maí 2012 féll sak­sókn­ari frá ákær­unni en áður hafði Shuai neitað að semja við sak­sókn­ara um væg­ari dóm ef hún játaði sök.

Í des­em­ber 2010 rak Shuai kín­versk­an veit­ingastað í Indi­ana­pol­is ásamt unn­usta sín­um, Zhiliang Guan, og var hún kom­in tæpa átta mánuði á leið. Nokkr­um dög­um fyr­ir jól til­kynnti hann henni að hann væri kvænt­ur og ætti aðra fjöl­skyldu og hann ætlaði sér að snúa aft­ur til henn­ar.

Þegar Shuai grátbað hann um að vera áfram kastaði hann pen­ing­um í hana og skildi hana eft­ir grát­andi á bíla­stæði. Full ör­vænt­ing­ar tók hún inn rottu­eit­ur og skrifaði sjálfs­vígs­bréf þar sem hún sagðist taka eigið líf og hún myndi taka barnið með sér.

Vin­ir komu að henni og fóru með hana á sjúkra­hús þar sem tókst að bjarga lífi henn­ar en tíu dög­um síðar var barnið tekið með keis­ara­sk­urði en það lést fjór­um dög­um síðar úr heila­blæðingu.

Þrem­ur mánuðum síðar var hún ákærð fyr­ir að bera ábyrgð á dauða barns­ins þar sem það var niðurstaða rík­is­sak­sókn­ara að rottu­eitrið, sem næst­um því drap Shuai, hefði drepið barnið. Ef hún hefði verið dæmd átti hún yfir höfði sér lang­an fang­els­is­dóm.

Um­fjöll­un Guar­di­an um málið

Vann rétt­ar­meina­fræðing­ur­inn vinn­una sína?

Það eru flest­ir sam­mála um að fíkni­efni og meðganga fara ekki sam­an og frétt­ir af dauðsföll­um barna snerta alla enda ríkt í flest­um að vernda börn frá öllu illu. En í máli Gibbs snýst þetta um annað. Því þar snýst þetta miklu frem­ur um að rétt­ar­meina­fræðing­ur­inn hafi ekki unnið heima­vinn­una sína sem skyldi.

Þegar hann hafi fundið leif­ar benzoy­lecgon­ine, sem er und­ir­staðan í kókaíni, í þvagi Gibbs hafi hið aug­ljósa farið fram hjá hon­um - að nafla­streng­ur­inn var vaf­inn um háls barns­ins. Vilja verj­end­ur Gibbs meina að til­finn­ing­arn­ar hafi haft meira að segja þegar Hayne kvað upp úr­sk­urð sinn en staðreynd­ir.

Þetta er ekki í fyrsta skipti þar sem hæfi Haynes er dregið í efa á þeim tíma sem hann gegndi embætti rík­is­rétt­ar­meina­fræðings Mississippi. Hayne hafði gríðarleg áhrif í fjöl­mörg­um saka­mál­um í rík­inu en talið er að hann hafi gert 80-90% allra krufn­inga þar frá ár­inu 1987 til 2008 eða um 1.500 krufn­ing­ar á ári.

Var dæmd­ur til dauða fyr­ir morð sem hann gat ekki hafa framið

Þar megi nefna fjór­ar sak­fell­ing­ar í morðmál­um sem byggðust á niður­stöðum Haynes en þeim hef­ur öll­um verið snúið við og viðkom­andi sýknaðir frá ár­inu 2007. Einn hinna dæmdu var dæmd­ur til dauða fyr­ir morð á þriggja ára gam­alli stúlku.

Árið 1992 var Kenn­e­dy Brewer hand­tek­inn í Mississippi og sakaður um að hafa myrt þriggja ára gamla stjúp­dótt­ur sína. Eft­ir að hafa beðið í fang­elsi í þrjú ár eft­ir því að réttað yrði í mál­inu var hann dæmd­ur til dauða og send­ur á dauðadeild. 
Það var aðfaranótt 3. maí 1992 sem Christ­ine Jackson, þriggja ára gamlli dótt­ur Gloriu Jacksons, var rænt af heim­ili sínu, henni nauðgað og myrt. Brewer hafði kvöldið áður gætt stúlk­unn­ar og tveggja yngri systkina henn­ar, en hann er faðir þeirra tveggja. 
Tveim­ur dög­um síðar fannst lík henn­ar í lít­illi vík í um 500 metra fjar­lægð frá heim­ili henn­ar. Lög­reglu grunaði að Brewer bæri ábyrgð á glæpn­um þar sem hann var einn heima með börn­in þrjú um kvöldið og eng­in um­merki voru um inn­brot í húsi þeirra fyr­ir utan brotna rúðu skammt frá svefnstað barns­ins sem ekki var rann­sakað frek­ar.
Taldi sár á lík­ama stúlk­unn­ar vera bit­för
Við rétt­ar­höld­in bar Steven Hayne vitni um að hafa fundið fjöl­mörg bit­för á lík­ama stúlk­unn­ar og þau væru án efa eft­ir Brewer. Vísaði hann til ann­ars sér­fræðings sem hafði kom­ist að sömu niður­stöðu. Vörn­in fékk þriðja sér­fræðing­inn til þess að bera vitni og sá hélt því fram að bit­för­in mætti rekja til þess að líkið hafði verið í vatni.
Sæði úr öðrum manni
Níu árum eft­ir hand­tök­una eða árið 2001 sönnuðu líf­sýni að hann gat ekki hafa framið glæp­inn sem hann var sakaður um þar sem sæði sem fannst í lík­ama barns­ins var ekki úr hon­um né held­ur nein­um ná­komn­um hon­um.

Sak­sókn­ar­ar sögðu að þeir færu fram á að ný rétt­ar­höld yfir Brewer og því sat hann í fang­elsi þangað til í ág­úst 2007 er hann var lát­inn laus gegn trygg­ingu. Þá hafði hann setið á bak við lás og slá í fimmtán ár.

Þann 15. fe­brú­ar 2008 var hann síðan hreinsaður af sök en þá hafði hann setið í sjö ár á dauðadeild og í átta ár í fang­elsi þar sem hann beið eft­ir rétt­ar­höld­um.

Ann­ar maður dæmd­ur fyr­ir morð vegna bit­fara

Þegar unnið var að því að rétta á ný yfir Brewer óskuðu sam­tök­in Sak­leysi (Innocence Proj­ect) eft­ir því að rík­is­sak­sókn­ari Mississippi myndi fara yfir rann­sókn máls­ins. Líf­sýnið (DNA) sem byggt var á reynd­ist vera úr Just­in Al­bert John­son, sem var einn hinna grunuðu í upp­hafi rann­sókn­ar­inn­ar, og játaði hann að hafa nauðgað og myrt litlu stúlk­una. Eins játaði hann að hafa myrt Court­ney Smith, þriggja ára gamla stúlku sem var nauðgað og myrt í sama hverfi í sept­em­ber 1990. Lík henn­ar fannst í tjörn skammt frá heim­ili henn­ar.

Fyrr­ver­andi unnusti móður stúlk­unn­ar, Levon Brooks, var ákærður og dæmd­ur fyr­ir morðið en dóm­ur­inn byggðist einkum á bit­för­um sem fund­ust á líki henn­ar.

Þann sama dag og fallið var frá sak­sókn á hend­ur Brewer var Brooks einnig lát­inn laus úr fang­elsi.

Árið 2009 höfðaði Brewer mál gegn Haynes og sér­fræðingn­um sem hann vitnaði til. Það mál er enn í gangi í dóms­kerf­inu. Hann fékk hins veg­ar hálfa millj­ón Banda­ríkja­dala, 57 millj­ón­ir króna, í bæt­ur frá Mississippi.

Verj­end­ur Gibbs hafa ekki veitt fjöl­miðlum mikl­ar upp­lýs­ing­ar um for­sögu Gibbs né held­ur hvað gerðist dag­ana áður en hún fæddi and­vana barn. Það sem vitað er er að hún varð þunguð fimmtán ára göm­ul og þríveg­is greind­ust leif­ar af marijú­ana og eða kókaíns í lík­ama henn­ar á meðgöng­unni. Eins mætti hún illa í skoðanir á meðgöngu.

Fæðing fram­kölluð

Í nóv­em­ber 2006 kom Gibb á bráðamót­tök­una á Bapt­ist Memorial-sjúkra­hús­inu í Col­umbus. Þar leiddi rann­sókn í ljós að fóstrið var látið og fæðing sett af stað. Í þvagi henn­ar greind­ust leif­ar kókaíns og maríjúna. Þegar Samiya fædd­ist and­vana í þenn­an heim var Hayne bú­inn að skrifa skýrslu sína; lík­leg dánar­or­sök mann­dráp. Í skýrslu hans er ekki tekið til­lit til þess að þegar Samiya kom í heim­inn var nafla­streng­ur henn­ar vaf­inn um háls henn­ar. Enda var hann bú­inn að skrifa skýrslu sína. Ef ákveðið verður að halda áfram með sak­sókn gegn Gibbs verður vænt­an­lega tek­ist á um hvort hafi leitt til dauða fóst­urs­ins; eit­ur­lyfja­neysla móður á meðgöngu eða nafla­streng­ur um háls barns­ins

Eins er spurn­ing um hvort ófætt barn sé barn eða fóst­ur í skiln­ingi laga því slík­ur skiln­ing­ur get­ur haft úr­slita­áhrif um hvort viðkom­andi móðir er sak­felld fyr­ir morð eða fyr­ir að hafa valdið fóstri hættu á meðgöngu. 

Um­fjöll­un um nokk­ur mál gegn mæðrum

Er það glæp­ur að vera vond móðir?

Nýfætt barn
Ný­fætt barn AFP
Fóstur
Fóst­ur mbl.is
AFP
Hvenær verður fóstur barn?
Hvenær verður fóst­ur barn? AFP
Fóstureyðingar hafa verið löglegar í Bandaríkjunum um áratuga skeið
Fóst­ur­eyðing­ar hafa verið lög­leg­ar í Banda­ríkj­un­um um ára­tuga skeið AFP
AFP
Krakk kókaín
Krakk kókaín Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert