Rennie Gibbs var sextán ára gömul þegar hún fæddi andvana barn í Mississippi. Hún á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi fyrir að hafa neytt kókaíns á meðgöngunni.
Fréttavefurinn Pro Publica fjallar í vikunni um málefni kvenna sem í auknum mæli eru saksóttar fyrir að stofna lífi ófæddra barna sinna í hættu.
Dóttir Rennie Gibbs, Samiya, fæddist mánuði fyrir tímann. Hún kom í heiminn á sömu stundu og hún yfirgaf hann án þess að draga nokkurn tíma andann. Sérfræðingar sem síðar skoðuðu læknaskýrslur frá fæðingu hennar segja að helsta skýringin á að hún lést í móðurkviði sé sú að naflastrengurinn var vafinn um háls hennar.
En það var ekki talin líklegasta skýringin í nóvember 2006 þegar Samiya kom í heiminn. Réttarmeinafræðingurinn, Steven Hayne, lýsti því yfir að um manndráp hefði verið að ræða þar sem leifar af krakkkókaíni hefðu fundist í líkama barnsins. Banamein hennar hefði því verið kókaíneitrun.
Ákærð fyrir morð
Í byrjun árs 2007 var Gibbs, sem þá var sextán ára gömul, ákærð fyrir að eiga sök á dauða barnsins með því að hafa reykt krakk á meðgöngunni. Hún hefði því borið ábyrgð á dauða dóttur sinnar. Hámarksrefsing fyrir slíkan glæp í Mississippi er lífstíðarfangelsi.
Nú sjö árum síðar og eftir marga ranghala í dómskerfinu bendir allt til þess að mál Gibbs verði tekið fyrir í réttarsal. Er málið eitt margra sem hafa komið upp á undanförnum árum í Bandaríkjunum varðandi rétt ófæddra barna og rétt mæðra. Er hægt að sakfella mæður fyrir manndráp ef barn deyr í móðurkviði.
Á næstu dögum mun dómari ákveða hvort málinu verði vísað frá eða tekið fyrir dómi. Ef málinu verður framhaldið í dómskerfinu á Gibbs á hættu að verða fyrst kvenna í Mississippi sem er dæmd fyrir að fæða andvana barn.
Ef ákveðið verður að dómtaka málið verður væntanlega gerð grein fyrir því að það sé vísindalega sannað að kókaínneysla á meðgöngu geti bundið enda á líf fósturs eða að niðurstaða Haynes og saksóknara byggist á röngum ályktunum og lélegum vísindum.
Tekur á mörgum spurningum
Mál Gibbs tekur á mörgum spurningum og um leið hvernig tekið er á málum fátæks blökkufólks í sakamálum í Bandaríkjunum, einkum þegar eiturlyf koma við sögu. Eins það sjónarmið að fóstur sé persóna og réttur til fóstureyðinga.
Fóstureyðingar hafa verið löglegar í rúmlega 40 ár í Bandaríkjunum eða allt frá því hæstiréttur dæmdi í máli Roe gegn Wade 1973. Þrátt fyrir að þær séu löglegar er stór og áhrifamikill hópur andsnúinn fóstureyðingum og hafa ríki frekar farið í þá átt að þrengja túlkun sína á heimildum til fóstureyðinga að undanförnu en að víkka út skilning sinn á lagarammanum.
Saksóknarar benda á að ríkið beri ábyrgð á að vernda börn fyrir hættulegri hegðun foreldra. Bendir ríkissaksóknari í Mississippi á að ef ekki verði réttað yfir Gibbs þýði að „hver eiturlyfjafíkill sem rænir eða stelur til þess að útvega pening fyrir dópi eigi ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum vegna fíknar sinnar“.
Á sama tíma óttast ýmsir þeirra sem berjast fyrir réttindum kvenna og jafnrétti að ef Gibbs verður sakfelld þýði það að aukinn kraftur verði settur í saksókn gegn konum eða stúlkum sem missa börn á meðgöngu eða fara í fóstureyðingu. Þetta myndi snerta blökkukonur mest en það er tvöfalt algengara að þær fæði andvana börn en hvítar konur.
Samkvæmt grein Pro Publica eru fá ríki með jafnslæmt orðspor og Mississippi þegar kemur að heilsufari barna. Eins er mjög algengt að ungar stúlkur verði þungaðar þar og kynsjúkdómar eru mjög algengir. Harðar reglur gilda í ríkinu varðandi rétt á fóstureyðingum. Meðal atriða sem nefnd eru sem orsakir þess að fyrirburafæðingar eru algengar í Mississippi og hærri dánartíðni meðal ungra barna eru fátækt, skortur á næringarríkum mat, erfitt aðgengi að heilsugæslu, mengun, reykingar og streita.
En mál Gibbs er ekkert einsdæmi því fjölmörg mál hafa komið upp í Bandaríkjunum á undanförnum árum þar sem konur hafa verið handteknar og stundum dæmdar fyrir morð vegna einhvers sem er álitið hættulegt framferði á meðgöngu.
Át rottueitur og lifði af sjálf en missti barnið
Bei Bei Shuai sat í gæsluvarðhaldi í Indiana í rúmt ár en hún var ákærð fyrir tilraun til fóstureyðingar og morðs. Shuai gerði tilraun til sjálfsvígs þegar hún var komin tæpa átta mánuði á leið. Í maí 2012 féll saksóknari frá ákærunni en áður hafði Shuai neitað að semja við saksóknara um vægari dóm ef hún játaði sök.
Í desember 2010 rak Shuai kínverskan veitingastað í Indianapolis ásamt unnusta sínum, Zhiliang Guan, og var hún komin tæpa átta mánuði á leið. Nokkrum dögum fyrir jól tilkynnti hann henni að hann væri kvæntur og ætti aðra fjölskyldu og hann ætlaði sér að snúa aftur til hennar.
Þegar Shuai grátbað hann um að vera áfram kastaði hann peningum í hana og skildi hana eftir grátandi á bílastæði. Full örvæntingar tók hún inn rottueitur og skrifaði sjálfsvígsbréf þar sem hún sagðist taka eigið líf og hún myndi taka barnið með sér.
Vinir komu að henni og fóru með hana á sjúkrahús þar sem tókst að bjarga lífi hennar en tíu dögum síðar var barnið tekið með keisaraskurði en það lést fjórum dögum síðar úr heilablæðingu.
Þremur mánuðum síðar var hún ákærð fyrir að bera ábyrgð á dauða barnsins þar sem það var niðurstaða ríkissaksóknara að rottueitrið, sem næstum því drap Shuai, hefði drepið barnið. Ef hún hefði verið dæmd átti hún yfir höfði sér langan fangelsisdóm.
Vann réttarmeinafræðingurinn vinnuna sína?
Það eru flestir sammála um að fíkniefni og meðganga fara ekki saman og fréttir af dauðsföllum barna snerta alla enda ríkt í flestum að vernda börn frá öllu illu. En í máli Gibbs snýst þetta um annað. Því þar snýst þetta miklu fremur um að réttarmeinafræðingurinn hafi ekki unnið heimavinnuna sína sem skyldi.
Þegar hann hafi fundið leifar benzoylecgonine, sem er undirstaðan í kókaíni, í þvagi Gibbs hafi hið augljósa farið fram hjá honum - að naflastrengurinn var vafinn um háls barnsins. Vilja verjendur Gibbs meina að tilfinningarnar hafi haft meira að segja þegar Hayne kvað upp úrskurð sinn en staðreyndir.
Þetta er ekki í fyrsta skipti þar sem hæfi Haynes er dregið í efa á þeim tíma sem hann gegndi embætti ríkisréttarmeinafræðings Mississippi. Hayne hafði gríðarleg áhrif í fjölmörgum sakamálum í ríkinu en talið er að hann hafi gert 80-90% allra krufninga þar frá árinu 1987 til 2008 eða um 1.500 krufningar á ári.
Var dæmdur til dauða fyrir morð sem hann gat ekki hafa framið
Þar megi nefna fjórar sakfellingar í morðmálum sem byggðust á niðurstöðum Haynes en þeim hefur öllum verið snúið við og viðkomandi sýknaðir frá árinu 2007. Einn hinna dæmdu var dæmdur til dauða fyrir morð á þriggja ára gamalli stúlku.
Saksóknarar sögðu að þeir færu fram á að ný réttarhöld yfir Brewer og því sat hann í fangelsi þangað til í ágúst 2007 er hann var látinn laus gegn tryggingu. Þá hafði hann setið á bak við lás og slá í fimmtán ár.
Þann 15. febrúar 2008 var hann síðan hreinsaður af sök en þá hafði hann setið í sjö ár á dauðadeild og í átta ár í fangelsi þar sem hann beið eftir réttarhöldum.
Annar maður dæmdur fyrir morð vegna bitfara
Þegar unnið var að því að rétta á ný yfir Brewer óskuðu samtökin Sakleysi (Innocence Project) eftir því að ríkissaksóknari Mississippi myndi fara yfir rannsókn málsins. Lífsýnið (DNA) sem byggt var á reyndist vera úr Justin Albert Johnson, sem var einn hinna grunuðu í upphafi rannsóknarinnar, og játaði hann að hafa nauðgað og myrt litlu stúlkuna. Eins játaði hann að hafa myrt Courtney Smith, þriggja ára gamla stúlku sem var nauðgað og myrt í sama hverfi í september 1990. Lík hennar fannst í tjörn skammt frá heimili hennar.
Fyrrverandi unnusti móður stúlkunnar, Levon Brooks, var ákærður og dæmdur fyrir morðið en dómurinn byggðist einkum á bitförum sem fundust á líki hennar.
Þann sama dag og fallið var frá saksókn á hendur Brewer var Brooks einnig látinn laus úr fangelsi.
Árið 2009 höfðaði Brewer mál gegn Haynes og sérfræðingnum sem hann vitnaði til. Það mál er enn í gangi í dómskerfinu. Hann fékk hins vegar hálfa milljón Bandaríkjadala, 57 milljónir króna, í bætur frá Mississippi.
Verjendur Gibbs hafa ekki veitt fjölmiðlum miklar upplýsingar um forsögu Gibbs né heldur hvað gerðist dagana áður en hún fæddi andvana barn. Það sem vitað er er að hún varð þunguð fimmtán ára gömul og þrívegis greindust leifar af marijúana og eða kókaíns í líkama hennar á meðgöngunni. Eins mætti hún illa í skoðanir á meðgöngu.
Fæðing framkölluð
Í nóvember 2006 kom Gibb á bráðamóttökuna á Baptist Memorial-sjúkrahúsinu í Columbus. Þar leiddi rannsókn í ljós að fóstrið var látið og fæðing sett af stað. Í þvagi hennar greindust leifar kókaíns og maríjúna. Þegar Samiya fæddist andvana í þennan heim var Hayne búinn að skrifa skýrslu sína; líkleg dánarorsök manndráp. Í skýrslu hans er ekki tekið tillit til þess að þegar Samiya kom í heiminn var naflastrengur hennar vafinn um háls hennar. Enda var hann búinn að skrifa skýrslu sína. Ef ákveðið verður að halda áfram með saksókn gegn Gibbs verður væntanlega tekist á um hvort hafi leitt til dauða fóstursins; eiturlyfjaneysla móður á meðgöngu eða naflastrengur um háls barnsins
Eins er spurning um hvort ófætt barn sé barn eða fóstur í skilningi laga því slíkur skilningur getur haft úrslitaáhrif um hvort viðkomandi móðir er sakfelld fyrir morð eða fyrir að hafa valdið fóstri hættu á meðgöngu.