Rússum sama þó að þeir verði reknir úr G8

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AFP

Það væri ekkert stórmál fyrir Rússa þó að þeim yrði vísað úr G8-ríkjahópnum sem telur átta helstu efnahagsveldi heimsins. Þetta sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í dag. Rætt hefur verið um þann möguleika að reka Rússa úr G8-hópnum vegna innlimunar þeirra á Krímskaga í Rússland.

„Ef félagar okkar á Vesturlöndum halda að þetta fyrirkomulag eigi ekki við lengur þá er það bara þannig. Í öllu falli erum við ekki að reyna að halda í það og það væri ekkert stórmál fyrir okkur þó að G8-ríkin hættu að hittast,“ sagði Lavrov við fréttamenn eftir að hafa fundað með John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og starfandi utanríkisráðherra Úkraínu, Andrij Destsjítsja, í Haag í Hollandi.

Á meðan Lavrov ræddi við fréttamenn funduðu forystumenn G7-ríkjanna, Bandaríkjanna, Japans, Þýskalands, Ítalíu, Frakklands, Kanada og Bretlands, skammt frá þar sem rætt var um hvort grípa ætti til frekari refsiaðgerða gegn Rússum vegna framgöngu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert