Gayet fær skaðbætur frá Closer

Julie Gayet fær skaðabætur frá tímaritinu Closer.
Julie Gayet fær skaðabætur frá tímaritinu Closer. AFP

Tímaritið Closer þarf að greiða frönsku leikkonunni Julie Gayet 15 þúsund evrur í skaðabætur, eða 2,3 milljónir íslenskra króna. Hún höfðaði skaðabótamál gegn tímaritinu fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar með birtingu fréttar og mynda af henni og forseta Frakklands, François Hollande.

Gayet fór fram á 50 þúsund evrur í skaðabætur, 7,7 milljónir íslenskra króna, og fjögur þúsund evrur í málskostnað. Þá þarf tímaritið einnig að birta dóminn á forsíðu blaðsins.

Closer birti ítarlegar fréttir af því að Hollande hefði haldið við Gayet í tvö ár og í kjölfarið slitu hann og sambýliskona hans til margra ára, Valérie Trierweiler, samvistir.

Meðal annars fylgdu með ljósmyndir af Hollande laumast á fund hennar um miðja nótt á skellinöðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert