Tæp fimmtíu ár á dauðadeild

Hideko Hakamada, systir Iwao Hakamada með mynd af bróður sínum
Hideko Hakamada, systir Iwao Hakamada með mynd af bróður sínum AFP

Japanskur dómstóll hefur samþykkt að láta mann á áttræðisaldri lausan eftir að hafa verið í tæpa hálfa öld á dauðadeild. Er talið að hann sé ekki sekur um morð sem framin voru árið 1966 og hann dæmdur til dauða fyrir árið 1968.

Iwao Hakamada, 78 ára, var dæmdur til dauða fyrir að myrða yfirmann sinn, eiginkonu hans og tvö börn.

Hakamada játaði morðin á sig eftir tuttugu daga yfirheyrslur en hann segist hafa játað eftir pyntingar. Hann dró síðan játninguna til baka við réttarhöldin. 

Í yfirlýsingu frá Amnesty International kemur fram að sennilega hafi enginn setið jafnlengi á dauðadeild í heiminum og Hakamada.

Roseann Rife, sem stýrir Amnesty International í Austur-Asíu, segir að Hakadada hafi verið dæmdur á grundvelli þvingaðrar játningar og enn eigi eftir að svara spurningum um lífsýni sem fundust í fatnaði morðingjans. Lífsýnin geta ekki verið úr Hakadada og er því efast um að hann geti verið morðinginn.

Ákveðið var við héraðsdóminn í  Shizuoka að taka málið upp aftur og segir dómsforsetinn, Hiroaki Murayama, möguleika á að gögnum hafi verið komið fyrir af þeim sem komu að rannsókninni til þess að koma sök á Hakadada sem verður látinn laus á meðan ný rannsókn fer fram.

Japan er eina lýðræðisríkið fyrir utan Bandaríkin í hinum iðnvædda heimi sem enn dæmir fólk til dauða. 

Hakamada er sá sjötti sem hefur verið dæmdur til dauða í Japan sem réttað er á ný yfir frá seinni heimsstyrjöldinni. Saksóknari hefur ekki ákveðið hvort ákvörðuninni um endurupptöku verði áfrýjað.

Hakamada var ákærður fyrir að hafa rænt heimili yfirmanns síns í verksmiðjunni þar sem hann starfaði, myrt fjölskyldu hans og kveikt í húsi þeirra. Árið 1980 staðfesti hæstiréttur dauðadóminn yfir honum.

Fatnaðurinn sem sakfellingin byggðist meðal annars á fannst ári eftir morðið og hann passaði ekki einu sinni á hinn meinta morðingja, að sögn stuðningsmanna hans. Lengi hefur verið efi um að hann hafi getað framið morðin en allt komið fyrir ekki. Skiptir þar engu að jafnvel einn þeirra dómara sem dæmdu hann til dauða árið 1968 segi að hann hafi alltaf efast um sekt hans. 

Systir Hakamadas, Hideko, hefur barist fyrir því að fá bróður sinn lausan um áratuga skeið. Hún þakkaði stuðningsmönnum hans þegar niðurstaða dómsins lá fyrir. Hakamada þjáist af andlegum veikindum eftir áratuga langa einangrun, að sögn systur hans, sem vonast til þess að fá hann heim sem fyrst.

Hideko Hakamada fagnar niðurstöðu dómsins.
Hideko Hakamada fagnar niðurstöðu dómsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert