Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, var útnefndur næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO) í dag. Hann tekur við stöðunni af Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forætisráðherra Danmerkur, sem gegnt hefur henni frá árinu 2009.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá NATO samkvæmt frétt AFP. Þar segir að Stoltenberg taki formlega við stöðu framkvæmdastjóra bandalagsins 1. október á þessu ári þegar ráðningartíma Rasmussens ljúki. Fram kemur í fréttinni að Stoltenberg, sem er hagfræðingur að mennt, hafi verið mikill andstæðingur NATO sem ungur maður.