Lög sem heimila samkynhneigðum pörum að ganga í hjónaband tóku gildi á miðnætti í Englandi og Wales. Fram kemur í frétt AFP að nokkur pör hafi verið að undirbúa brúðkaup í gærkvöldi til þess að verða fyrst til að ganga í hjónaband eftir að lögin tóku gildi.
Fram kemur að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafi lýst þessum tímamótum sem mikilvægum í sögu landsins. „Í stuttu máli sagt mun engu máli skipta lengur hvort fólk er gagnkynhneigt eða samkynhneigt. Hið opinbera mun samþykkja sambönd þess á jafnréttisgrunni,“ sagði hann í yfirlýsingu. Samkynhneigðir hafa getað gengið í borgaralegt hjónaband í Bretlandi frá árinu 2005 samkvæmt frétt AFP og nýju lögin fela ekki í sér ný borgaralega réttindi. Þannig hafi samkynhneigðir til að mynda getað ættleitt börn frá árinu 2002.
Þá segir að hjónabönd samkynhneigðra sem hafa gift sig í öðrum löndum séu nú viðurkennd í Englandi og Wales. Gert sé ráð fyrir að Skotland, sem hafi sjálfdæmi í þessum málum, samþykki hjónabönd samkynhneigðra síðar á árinu. Hins vegar sé óvíst með Norður-Írland þar sem mjög skiptar skoðanir séu um málið.