Óflokksbundinn forseti í Slóvakíu

Andrej Kiska
Andrej Kiska Mynd/AFP

Andrej Kiska sigraði í gær í forsetakosningunum í Slóvakíu. Hinn 51 árs gamli Kiska verður fyrsti forseti landsins sem á sér ekki fortíð í kommúnistaflokki landsins. Kiska er nýtt andlit í stjórnmálaflóru Slóvakíu og er ekki skráður í neinn stjórnmálaflokk. Hann er gríðarlega auðugur en hefur á undanförnum árum snúið sér í auknum mæli að góðgerðarmálum. 

Í kosningunum sigraði Kiska núverandi forsætisráðherra landsins, Robert Fico, og kom þannig í veg fyrir að aukin völd söfnuðust á hendur Ficos. Fico viðurkenndi ósigur sinn í gærkvöldi en sigur Kiskas var afar afgerandi. 

Talið er líklegt að Robert Fico verði áfram forsætisráðherra út kjörtímabil sitt sem endar árið 2016 þrátt fyrir að hafa tapað forsetakosningunum. Margir sérfræðingar telja að ef Fico hefði unnið hefði hann reynt að breyta stjórnarskrá landsins og færa völd frá þinginu til forsetans. Fico reyndi í kosningabaráttu sinni að varpa ljósi á reynsluleysi Kiskas í stjórnmálum og fékk hann til að mynda stuðning frá Francois Hollande Frakklandsforseta og Martin Schulz, forseta Evrópuþingsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert