Segja áfrýjun ekkert annað en pyntingar

Iwao Hakamada var látinn laus á fimmtudag.
Iwao Hakamada var látinn laus á fimmtudag. AFP

Ákvörðun saksóknara að áfrýja niðurstöðu dómara sem lét Iwao Hakamada, 78 ára, lausan á fimmtudag eftir tæplega hálfrar aldar vistun á dauðadeild í Japan er ekkert annað en sálrænar pyntingar, segir Amnesty International.

Í tilkynningu frá mannréttindasamtökunum kemur fram að með ákvörðun sinni sé saksóknari að bæta við þær sálrænu þjáningar sem Hakamada hefur þurft að þola undanfarna áratugi.

Hakamada var dæmdur til dauða fyrir að myrða yfirmann sinn, eiginkonu hans og tvö börn. Hann játaði morðin á sig eftir tuttugu daga yfirheyrslur en hann segist hafa játað eftir pyntingar. Hann dró síðan játninguna til baka við réttarhöldin. 

Ákveðið var við héraðsdóminn í Shizuoka að taka málið upp aftur og segir dómsforsetinn, Hiroaki Murayama, möguleika á að gögnum hafi verið komið fyrir af þeim sem komu að rannsókninni til þess að koma sök á Hakadada sem verður látinn laus á meðan ný rannsókn fer fram.

„Í 46 ár hefur Hakamada setið undir stöðugum ótta um að verða tekinn af lífi. Dag eftir dag hefur hann ekki vitað hvort sá næsti yrði hans síðasti. Þessi áfrýjun mun einungis auka við þjáningar hans,“ segir Roseann Rife, sem stýrir starfsemi Amnesty International í Japan.

Saksóknari lagði fram beiðni um áfrýjun í hæstaréttti í dag. Það getur tekið allt að tvö ár fyrir hæstarétt að taka ákvörðun.

Sjá nánar hér

Tæp fimmtíu ár á dauðadeild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert